Hljómsveit Kalla Bjarna (1974-80)

Hljómsveit Kalla Bjarna

Hljómsveit Kalla Bjarna starfaði á Akranesi um árabil á áttunda áratug síðustu aldar og lék sveitin á fjölmörgum dansleikjum á Skaganum og nágrannasveitarfélögunum.

Sveitin var stofnuð haustið 1974 og voru upphaflegir meðlimir sveitarinnar þeir Sveinn Jóhannsson trommuleikari, Reynir Theódórsson söngvari og gítarleikari, Brynjar Víkingur Sigurðsson bassaleikari, Jón Trausti Hervarsson saxófónleikari og hljómsveitarstjórinn Ketill Baldur Bjarnason hljómborðs- og harmonikkuleikari en hann gekk iðulega undir nafninu Kalli Bjarna.

Sveitin varð fljótlega eins konar húshljómsveit á Hótel Akranesi og átti eftir að leika þar mikið allan tímann sem hún starfaði en einnig léku þeir félagar heilmikið í félagsheimilinu Rein og svo í nágrannasveitarfélögunum, jafnvel í uppsveitum Borgarfjarðar, á Snæfellsnesi og í Dölunum en sveitin lék bæði á almennum dansleikjum og árshátíðum, þorrablótum þess konar samkomum. Til að mynda mun sveitin hafa leikið fyrir fjögur þúsund gesti á dansleik í íþróttahöllinni á Akranesi tengt landsmóti UMFÍ sem haldið var í bænum sumarið 1975.

Árið 1976 hætti Reynir söngvari og gítarleikari í sveitinni og sæti hans tók Guðmundur Gunnarsson, og síðar sama ár kom Ólafur Frímann Sigurðsson trommuleikari í stað Sveins.

Sveitin starfaði nokkuð samfleytt yfir árið en tók sér venjulega frí yfir sumartímann, sú pása varð lengri en ætluð var sumarið 1978 en hún birtist svo aftur í byrjun árs 1979 – þá voru í sveitinni þeir Kalli Bjarna, Guðmundur, Ólafur og Ragnar Knútsson bassaleikari. Sveitin starfaði líklega þannig skipuð í u.þ.b. ár og hætti störfum árið 1980.