Karl Adolfsson starfrækti hljómsveitir með margra áratuga millibilli, annars vegar á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar fyrir norðan og svo hins vegar í lok aldarinnar og fram á þá nýju á höfuðborgarsvæðinu.
Karl starfrækti hljómsveit í eigin nafni á Akureyri en sú sveit lék lengstum á Hótel Norðurlandi en síðar einnig víðar um Akureyri og nærsveitir, reyndar liggur ekki nákvæmlega fyrir hvenær hljómsveit hans tók til starfa en Ingimar Eydal steig sín fyrstu spor á tónlistarsviðinu með þessari sveit árið 1949 – aðeins þrettán ára gamall – sagan segir reyndar að Ingimar hafi einhvern tímann verið rekinn heim í skó en hann var þá mættur á sviðið á hótelinu á ullarsokkum. Aðrir meðlimir sveitarinnar voru þá Sigurður Jónsson [trommuleikari?], Níels Sveinsson [harmonikkuleikari?] og Karl Adolfsson hljómsveitarstjóri en ekki liggur fyrir á hvaða hljóðfæri hann lék þarna – síðar varð hann kunnur harmonikkuleikari.
Hljómsveit Karls starfaði til ársins 1954 hið minnsta en ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um skipan hljómsveitar hans utan þær sem nefndar eru hér að framan, líklega starfaði Ingimar um nokkurn tíma með sveitinni. Sveitin fetaði í fótspor hljómsveita á höfuðborgarsvæðinu á þessum tíma og leyfði ungum og efnilegum söngvurum að spreyta sig en rokkið var þá að hefja innreið sína, Óðinn Valdimarsson var einn þeirra ungu og efnilegu og söng hann með sveitinni um tíma.
Árið 1976 lék hljómsveit í nafni Karls Adolfssonar á balli sem haldið var fyrir blaðaburðarbörn en sú sveit var líkast til sett saman einvörðungu fyrir þessa einu uppákomu. Það var svo í kjölfar harmonikkuvakningar þeirra sem varð í kringum 1980 að Karl starfrækti aftur hljómsveitir innan Félags harmonikuunnenda í Reykjavík, fyrst hljómsveitina Létta tóna og svo Hljómsveit Karls Adolfssonar sem lék á ýmsum uppákomum á vegum félagsins á höfuðborgarsvæðinu á árunum 1997 til 2002. Ekki liggur fyrir hverjir léku með Karli í þeirri sveit en hann var þá sjálfur orðinn kunnur harmonikkuleikari.
Frekari upplýsingar óskast um hljómsveitir Karls Adolfssonar.














































