Hljómsveit Karls Lilliendahl (1958 / 1960-61 / 1964-72)

Hljómsveit Karls Lilliendahl 1956

Gítarleikarinn Karls Lilliendahl var einn fjölmargra sem hófu að starfrækja hljómsveit um og upp úr miðri 20. öldinni en algengt var þá að sveitir væru í nafni hljómsveitarstjórans og að lausráðnir söngvarar syngju með sveitunum um lengri eða skemmri tíma en væru í raun ekki hluti af hljómsveitinni.

Karl hafði fyrst verið með skólahljómsveit þegar hann var enn við nám við Gagnfræðaskóla Austurbæjar um 1950 en fyrsta alvöru sveit hans starfaði í Tjarnarcafe sumarið og haustið 1956, engar upplýsingar finnast um meðlimi og hljóðfæraskipan þessarar sveitar en að minnsta kosti þrír söngvarar komu við sögu hennar; Kitty Webb, Ragnar Bjarnason og Sigurður Ólafsson.

Fjórum árum síðar eða 1960 stofnaði Karl aftur hljómsveit sem átti eftir að starfa í um eitt ár. Þessi sveit lék í Lídó og komu ýmsir söngvarar við sögu hennar s.s. Ragnar Bjarnason, Marcia Owen, Sigurdór Sigurdórsson, Óðinn Valdimarsson og Erwin Koeppen en sá síðast taldi var líklega jafnframt bassaleikari sveitarinnar – að minnsta kosti til að byrja með. Einnig liggur fyrir að Guðmundur Steingrímsson var trommuleikari hennar í byrjun en Gunnar Mogensen leysti hann af hólmi um haustið, og að um svipað leyti hætti píanóleikarinn Jón Möller í henni – ekki eru upplýsingar um hver tók við af honum, Karl var sjálfur gítarleikari sveitarinnar og ekkert er að finna um aðra meðlimi hennar. Þessi sveit starfaði í Lídó fram á haustið 1961, færði sig þá yfir í Leikhúskjallarann og var þar tríó eitthvað fram eftir haustinu áður en það hætti störfum.

Hljómsveit Karls Lilliendahl

Árið 1964 hafði Karl starfað með hljómsveit Magnúsar Péturssonar píanóleikara í Klúbbnum um skeið, Magnús var ráðinn til starfa annars staðar um haustið og þá tók Karl við hljómsveitarstjórninni og hlaut sveitin um leið nafnið Hljómsveit Karls Lilliendahl. Ekki liggur fyrir hverjir skipuðu sveitina þá en um vorið á undan höfðu meðlimir hennar verið auk Magnúsar og Karls þeir Sveinn Óli Jónsson trommuleikari og Hrafn Pálsson bassaleikari, auk söngkonunnar Berthu Biering. Líklega kom Árni Elfar píanóleikari strax inn í sveitina í stað Magnúsar og árið 1965 var Edwin Kaaber orðinn bassaleikari hennar, Bertha söng með þeim eitthvað áfram en einnig Hjördís Geirsdóttir, Mjöll Hólm og Erla Traustadóttir.

Sveitin lék í Klúbbnum allt til ársins 1966 en þá bauðst henni að gerast húshljómsveit á Hótel Loftleiðum sem opnaði þá um haustið. Þá hafði Björn Jónsson bassaleikari komið inn í sveitina en að öðru leyti var hún skipuð sömu meðlimum og áður, þeim Karli, Árna og Sveini Óla. Litlar breytingar urðu á skipan sveitarinnar næstu árin en hún lék sex kvöld vikunnar á Loftleiðum, Jón Möller lék með henni undir lok áratugarins en líklega komu ekki fleiri hljóðfæraleikarar við sögu. Erla Traustadóttir, Hjördís Geirs, Helga Sigþórsdóttir og Linda Walker áttu eftir að skiptast á að syngja með sveitinni allt til ársins 1972 þegar ný hljómsveit Jóns Páls Bjarnasonar tók við keflinu. Þess má reyndar geta að eins konar hljómsveitaskipti voru milli Íslands og Finnlands um áramótin 1969-70 þegar finnsk sveit lék um nokkurra vikna skeið á hótelinu en hljómsveit Karls fór hins vegar til Helsinki og lék þar, með í þeirri för voru systkinin Þórir orgelleikari og María söngkona Baldursbörn en einnig fór Hjördís Geirs með sveitinni í þessa ævintýraferð.

Hljómsveit Karls á Loftleiðum

Eftir að Hljómsveit Karls Lilliendahl hætti störfum árið 1972 starfrækti Karl í fáein skipti skammlífar hljómsveitir en ekki virðist þar hafa verið um neina samfellda spilamennsku. Sveit í hans nafni lék t.a.m. eitthvað á þorrablótum snemma árs 1975 og einnig 1981 en ári síðar (1982) var Loftleiða-sveit Karls endurvakin til að leika á afmælistónleikum FÍH sem hélt þá upp á hálfrar aldar afmæli sitt, sú sveit rataði inn á tvöfalda plötu sem gefin var út með upptökum frá tónleikunum en þar var sveitin skipuð þeim Karli, Sveini Óla trommuleikara, Jóni Möller píanóleikara, Árna Scheving bassaleikara og Hjördísi Geirs söngkonu. Sú sveit var enn endurreist árið 1996 í tilefni af 30 ára afmæli Loftleiða en ekki liggur fyrir hverjir störfuðu þá með henni.

Hér hefur verið stiklað á stóru um hljómsveitir Karls Lilliendahl en einnig munu Guðjón Pálsson píanóleikari og Guðmar Marelsson trommuleikari hafa starfað með hljómsveitinni á einhverjum tímapunkti, ekki hefur tekið að tímasetja það nákvæmlega og er því óskað eftir frekari upplýsingum um það.