
Frá hljómsveitakeppninni 1991
Tíu sveitarfélög á Vestfjörðum héldu í nokkur skipti á níunda og tíunda áratug liðinnar aldar utan um æskulýðs- og íþróttahátíðir í landsfjórðungnum þar sem lögð var áhersla á heilbrigða skemmtun ungs fólks með blöndu íþrótta og afþreyingar, m.a. dansleikjum en í raun voru þetta fjölskylduhátíðir. Þessar hátíðir sem gengu undir nafninu Líf og fjör voru haldnar í fjórgang á árunum 1985 til 94 og á þremur þeirra var hljómsveitakeppni meðal skemmtiatriða.
Sumarið 1985 var hátíðin haldin í fyrsta sinn og fór þá fram á Núpi í Dýrafirði, hljómsveitakeppnina sigraði þá sveit frá Flateyri sem gekk undir nafninu Skurk og skarkali en engar frekari upplýsingar er að finna um keppnina s.s. fjölda sveita sem tóku þátt eða nöfn þeirra sveita sem höfnuðu í öðrum verðlaunasætum.
Næst var Líf og fjör haldið á Tálknafirði sumarið 1989, í þetta skiptið voru þrjár hljómsveitir skráðar til leiks, Vísbending frá Flateyri, Ógleði frá Ísafirði og Metal army frá Partreksfirði – síðast talda hljómsveitin sigraði keppnina og eins og nafn hennar gefur til kynna var um að ræða þungarokkssveit, verðlaunin í keppninni voru einmitt þungarokksplötur sem hafa væntanlega verið vel þegnar. Reyndar varð hátíðin endaslepp í þetta sinn því vestan stormur herjaði á hátíðargesti síðustu nóttina svo tjaldgestir þurftu með aðstoð björgunarsveitarinnar á Tálknafirði að flýja í heimahús en um þúsund gestir sóttu Líf og fjör í það skiptið.
Tveimur árum síðar (1991) var hátíðin haldin í þriðja sinn og nú aftur á Núpi í Dýrafirði og að þessu sinni sigraði hljómsveit frá Ísafirði en því miður vantar upplýsingar um nafn hennar – meðlimir hennar voru hins vegar Stefán Baldursson gítarleikari, Símon Jakobsson bassaleikari, Guðmundur Halldórsson gítarleikari og Jón Geir Jóhannsson trommuleikari og söngvari, þeir áttu síðar allir eftir að starfa með hljómsveitinni Urmul, og reyndar sumir þeirra síðar með öllu þekktari sveitum.
Líf og fjör var haldin í fjórða og síðasta skiptið sumarið 1994 á Núpi í Dýrafirði en svo virðist sem ekki hafi þá verið haldin hljómsveitakeppni.














































