Hljómsveitakeppni Skeljavíkurhátíðarinnar [tónlistarviðburður] (1987)

Cargo í Skeljavík

Tvívegis var blásið til útihátíðar í Skeljavík á síðari hluta níunda áratugarins en Skeljavík er rétt sunnan við Hólmavík á Ströndum. Í síðara skiptið sem Skeljavíkurhátíðin var haldin (1987) var hljómsveitakeppni meðal dagskrárliða en hún mun hafa farið fram með þeim hætti að á laugardeginum var undankeppni en úrslit á sunnudeginum. Í verðlaun voru hljóðverstíma í hljóðveri Bítlavinafélagsins en sú hljómsveit sá um að halda uppi stuðinu á hátíðinni ásamt Dolby frá Ísafirði.

Tveimur dögum fyrir keppnina höfðu fimm hljómsveitir verið skráðar til leiks og von var á fleirum en ekki er ljóst hversu margar þær urðu á endanum eða hverjar þær voru nema að sigursveitin var Cargo (síðar Kargó) frá Siglufirði. Sú sveit nýtti hljóðverstímana til að hljóðrita fjögur lög, meðal þeirra var lagið Vodka family sem eflaust hefur verið leikið á hljómsveitakeppninni í Skeljavík.