Söngvarinn Óðinn Valdimarsson starfrækti hljómsveit í eigin nafni um nokkurra mánaða skeið yfir veturinn 1961 til 62 en sveitin mun líkast til eingöngu hafa leikið á dansleikjum í Alþýðuhúsinu á Akureyri, fjórum sinnum í viku hverri.
Meðlimir Hljómsveitar Óðins Valdimarssonar voru auk hans sjálfs þeir Grétar Ingvarsson gítarleikari, Reynir Schiöth píanóleikari, Kristján Páll Kristjánsson bassa- og harmonikkuleikari, Þorsteinn Kjartansson saxófón- og klarinettuleikari og Hjalti Hjaltason trommuleikari. Þessi sveit mun einnig hafa leikið undir söng Steinunnar Bjarnadóttur á kabarettsýningu sem sett var á svið í Alþýðuhúsinu um vorið 1962.














































