Danski gítarleikarinn Ole Östergaard bjó lengi á Akranesi en þar starfrækti hann hljómsveitir. Hann hafði t.a.m. verið með strengjahljómsveit vorið 1948 en einnig starfrækti hann um og eftir 1950 hljómsveitina Fjarkann. Nokkru síðar stofnaði hann svo hljómsveit í eigin nafni sem hét einfaldlega Hljómsveit Ole Östergaard en hún starfaði í tvö eða þrjú ár, á árunum 1955 til 56.
Meðlimir hljómsveitar hans voru Ólafur Guðmundsson gítarleikari, Ríkharður Jóhannsson klarinettuleikari og Sveinn Jóhannsson trommuleikari en heimild segir Ole sjálfan hafa leikið á píanó í þessari hljómsveit sem er harla ósennilegt því hann var fyrst og fremst gítarleikari. Þessi sveit lék bæði á almennum dansleikjum og í leiksýningum leikfélagsins á Akranesi.














































