Afmælisbörn 1. nóvember 2024

Sigurður Markússon

Afmælisbörn dagsins hjá Glatkistunni að þessu sinni eru átta talsins:

Jón Sigurbjörnsson söngvari, leikari og hestamaður hefði átt afmæli í dag en hann lést 2021. Jón var fæddur á þessum degi 1922, nam leiklist í Bandaríkjunum og samhliða því lærði hann söng. Hann hélt áfram söngnámi á Ítalíu og hér heima en vann þó fyrst og fremst í leiklistinni. Söng hans má heyra á fjölmörgum plötum, mörgum  með tónlist úr leikhúsinu en einnig þar sem hann syngur t.a.m. einsöng með Karlakór Reykjavíkur. Tvær sólóplötur hafa komið út með Jóni.

Sagnfræðingurinn Davíð Ólafsson á fimmtíu og þriggja ára afmæli á þessum degi. Davíð er bassa- og gítarleikari hljómsveitarinnar Sagtmóðigur sem hefur sent frá sér fjölda platna frá því snemma á tíunda áratug síðustu aldar.

Arthur (Ross) Moon bassaleikari (f. 1943) hefði átt afmæli í dag en hann lést fyrr á þessu ári. Arthur var lengst af bassaleikari Lúdó og Stefáns en lék einnig með hljómsveitum eins og Falcon og Rondó tríó auk þess að starfrækja eigin sveit um tíma, Tríó Arthurs Moon.

Vilhjálmur Goði Friðriksson Brekkan söngvari og gítarleikari á fimmtíu og tveggja ára afmæli í dag. Hann var á sínum tíma í hljómsveitum eins og Bleeding Volcano, Tríói Jóns Leifssonar, Buffi, Todmobile, Kizz o.fl. og kom einnig við sögu á sviði í söngleikjum s.s. Súperstar, Hárinu og Grease. Hann hefur hin síðari ár starfað við ferðaþjónustu.

Þá er gítarleikarinn Kristján (Ólafur) Grétarsson fjörutíu og sjö ára gamall í dag. Hann er sonur Grétars Örvarssonar og hefur m.a. leikið í hljómsveit hans, Stjórninni en einnig hefur hann leikið með sveitum eins og The Flavour, Ísafold, Englum, BSG og Elektru. Þá hefur hann leikið inn á fjölda platna hjá tónlistarfólki eins og Nylon, Örvari Kristjánssyni, Björgvini Halldórssyni, Halla Melló, Jóhanni Ásmundssyni og mörgum öðrum.

Ólafur Guðmundsson (f. 1952) söngvari og gítarleikari BG & Ingibjargar frá Ísafirði hefði ennfremur átt afmæli þennan dag en hann lést árið 1986 einungis þrjátíu og fjögurra ára gamall. Ólafur var einnig fyrsti söngvari hljómsveitarinnar Grafíkur.

Sigurður Breiðfjörð Markússon fagottleikari og kórstjórnandi átti einnig afmæli á þessum degi. Sigurður var fæddur 1927, hann lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík en fór svo til framhaldsnáms í Bandaríkjunum og Englandi. Hann kenndi við ýmsa tónlistarskóla hér á landi en starfaði einnig sem fagottleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur og Birmingham symphony orchestra, hann lék með ýmsum minni hljómsveitum hér heima og var í Muscia Nova hópnum, og stjórnaði einnig kórum. Sigurður lést 2023.

Þá er hér að síðustu nefndur saxófón- og fiðluleikarinn Guðmundur (Ólafur) Finnbjörnsson (fæddur 1923) en hann rak hljómsveit í eigin nafni um langt árabil, þá lék hann einnig með hljómsveitum eins og Sextett Steinþórs Steingrímssonar, Hljómsveit Björns R. Einarssonar, Hljómsveit Baldurs Kristjánssonar og Hljómsveit Svavars Gests. Guðmundur lést 2009.

Vissi þú að fjölmiðlakonan Guðrún Dís Emilsdóttir lærði söng á sínum tíma?