
Haukur Ágústsson
Afmælisbörn Glatkistunnar eru fjögur í dag:
Ólafur Þór Arnalds tónlistarmaður er þrjátíu og átta ára gamall á þessum degi. Ólafur hefur að mestu leyti starfað sjálfstætt tónskáld og tónlistarmaður, gefið út fjöldann allan af plötum og hlotið fyrir þær viðurkenningar en hann hefur einnig leikið á trommur með sveitum eins og Mannamúl, Celestine, Fighting shit og I adapt svo fáeinar séu nefndar. Síðustu árin hefur hann m.a. starfrækt dúettinn Kiasmos og verið annar eigenda Öldu music.
Haukur Ágústsson tónskáld, textasmiður, söngvari, kórstjórnandi en fyrst og fremst tónlistargagnrýnandi átti afmæli á þessum degi. Haukur var fæddur í Reykjavík árið 1937 en starfaði lengst af á landsbyggðinni, lengst á Akureyri þar sem hann skrifaði um tónlist fyrir Dag, hann hafði þá áður m.a. verið skólastjóri og prestur en alltaf fengist við tónlist með einhverjum hætti og t.d. samdi hann söngleikinn um Litlu Ljót sem margir muna eftir. Haukur lést fyrr á þessu ári.
Húnvetningurinn Sigurvald Ívar Helgason trommuleikari og hljóðmaður fagnar í dag fimmtíu og tveggja ára afmæli sínu. Sigurvald hefur trommað með sveitum eins og Langbrók, Flugunni, Hljómsveit hússins, Hressu húsflugunni, Kamp knox og Lexíu og jafnframt leikið inn á nokkrar plötur með hinum og þessum listamönnum.
Og að síðustu er hér nefndur tónlistarmaðurinn, tónskáldið og tónlistarfræðingurinn dr. Hallgrímur Helgason (1914-94). Hallgrímur sem var fyrstur Íslendinga til að bera doktorstitil í tónvísindum var í grunninn fiðluleikari en hljóðfærið náði aldrei almennilega að verða í forgrunni hjá honum þar sem tónsmíðar og fræðistörf urðu ofan á en bæði liggja eftir hann fjölmörg tónverk og fræðirit, Hallgrímur var jafnframt framarlega í flokki í félagsmálum tónlistarmanna.
Vissir þú að SG-hljómplötur ætluðu að gefa út tveggja laga plötu með hljómsveitinni Gaddavír?














































