Glatkistan óskar landsmönnum til hamingju með Dag íslenskrar tónlistar sem er í dag 1. desember.
Deginum var reyndar þjófstartað í Tónlistarhúsinu Hörpu á föstudagsmorguninn þegar Samtónn og Íslensku tónlistarverðlaunin veittu nokkrar viðurkenningar fólki sem starfað hefur að íslensku tónlist, útbreiðslu hennar og uppgangi. Kolbrún Linda Ísleifsdóttir hlaut til að mynda Hvatningarverðlaun Dags íslenskrar tónlistar en hún hefur sótt fleiri tónleika í Hörpu en flestir aðrir, BRJÁN-félagsskapurinn í Neskaupstað hlaut Gluggann svokallaða fyrir stuðning við austfirskt tónlistarlíf, Ægir Sindri Bjarnason fékk Nýsköpunarverðlaunin að þessu sinni fyrir tónleikastaðinn R6013 sem styður við reykvíska jaðartónlist og Útflutningsverðlaunin hlaut hljómsveitin Kælan mikla sem hefur farið mikinn á erlendum vettvangi undanfarið. Þá fengu Anna Hildur Hildibrandsdóttir og Gísli Þór Guðmundsson (d. 2023) heiðursviðurkenninguna Lítinn fugl fyrir „að byggja upp íslenskan tónlistariðnað og veita íslensku tónlistarfólki og tónlistarlífi almennt sérstakt atfylgi og stuðning af einlægri ástríðu um áratuga skeið“, eins og segir í viðurkenningunni. Að lokum var Þorsteinn Eggertsson textahöfundur sæmdur gullmerki STEFs við þetta tækifæri í Hörpunni. GDRN, Helgi Björnsson og fleira tónlistarfólk kom einnig fram á þessari litlu athöfn og fluttu tónlistaratriði.
Í dag hins vegar er fólk sérstaklega hvatt til að gera íslenskri tónlist hátt undir höfði og í kvöld verða tónleikar til heiðurs tónlistarmanninum Magnúsi Eiríkssyni í Eldborg í Hörpu en hann hlýtur í dag heiðursverðlaun Tónlistarráðs, Þakkarorðu íslenskrar tónlistar en sú viðurkenning er nú veitt í fyrsta sinn á Degi íslenskrar tónlistar.
Til hamingju með daginn.














































