
Hljómsveit Skarphéðins Einarssonar
Hljómsveit Skarphéðins Einarssonar starfaði í Austur-Húnavatnssýslu, líklega á Blönduósi í um áratug fyrr á þessari öld – hugsanlega þó lengur, samstarf sveitarinnar við Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps var vel þekkt enda náði það yfir fjölda tónleika og rataði aukinheldur inn á plötu.
Fyrstu heimildir um hljómsveit Skarphéðins eru frá árinu 2010 en eins og segir hér að framan gæti sveitin hafa verið stofnuð mun fyrr, þetta ár hófst samstarf sveitarinnar við Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps (undir stjórn Sveins Árnasonar) þegar hún lék með kórnum á tónleikum sem tileinkaðir voru minningu Björns Pálssynar á Löngumýri. Ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um hversu margir tónleikar voru haldnir þarna en árið 2012 var einnig farið með tónleikadagskrána suður yfir heiðar.
Samvinnan gekk augljóslega það vel að framhald varð á samstarfi kórsins og hljómsveitarinnar og árið 2013 var farið af stað með söngdagskrá með lögum Geirmundar Valtýssonar sem sýnd var víðs vegar um norðanvert landið og síðan á höfuðborgarsvæðinu um haustið. Hér var hljómsveit Skarphéðins skipuð Elvari Inga Jóhannessyni gítarleikara, Benedikt Blöndal Lárussyni hljómborðsleikara, Friðriki Brynjólfssyni gítarleikara, Brynjari Óla Brynjólfssyni trommuleikara og Skarphéðni sjálfum en hann lék á trompet, auk þeirra léku á þessum tónleikum þær Hugrún Sif Hallgrímsdóttir flautuleikari, Bryndís Halldórsdóttir klarinettu- og saxófónleikari og Hrafnhildur Björnsdóttir flautuleikari sem gestahljóðfæraleikarar.
Aftur var farið suður með Geirmundardagskrána haustið 2014 en fyrr það sama ár hafði sveitin hljóðritað ásamt kórnum fjórtán lög eftir Geirmund í félagsheimilinu Húnaveri undir stjórn Rögnvaldar Valbergssonar sem þá var genginn til liðs við sveitina, og sú afurð kom svo út á geisladiskaformi um haustið undir titlinum Látum sönginn hljóma. Á þeirri plötu var einnig eitt nýtt lag eftir Geirmund, Heilög jól, við ljóð Sigurðar Hansen en í því söng áðurnefnd Hugrún Sif einsöng.
Enn hélt samstarf Hljómsveitar Skarphéðins Einarssonar og Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps áfram vorið 2015, og þá var farið af stað með tónleikaröð með lögum systkinanna Elly og Vilhjálms Vilhjálmsbarna. Sýningin naut vinsælda og farið var með hana víða um norðanvert landið, og árið 2016 voru fleiri tónleikar undir sömu yfirskrift m.a. á Akureyri og svo í Langholtskirkju í Reykjavík. Sveitin hafði á þessum tíma tekið örlitum breytingum, Skarphéðinn, Benedikt, Brynjar og Friðrik voru enn í henni auk Rögnvaldar bassaleikari sem áður er nefndur en einnig var Bjarni Salberg Pétursson gítarleikari genginn til liðs við sveitina – væntanlega í stað Elvars Inga – auk þess voru Hugrún Sif og Hrafnhildur enn á kantinum.
Kór og sveit störfuðu áfram næstu árins, árið 2017 tóku þau fyrir vinæl lög með Björgvini Halldórssyni undir yfirskriftinni Bó og meira til, með nokkrum tónleikum fyrir norðan og ári síðar var farið með þá tónleika suður til Reykjavíkur og víðar um suðvesturhorn landsins, reyndar var kórinn um það leyti allnokkuð í sviðsljósinu þegar hann sigraði í kórakeppninni Kórar Íslands á Stöð 2. Árið 2019 hélt samstarfið áfram í formi tónleika þar sem formið var eitthvað brotið upp en upplýsingar liggja ekki fyrir um hvert þemað var. Líklega lauk samstarfinu í Covid-heimsfaraldrinum árið 2020 en ekki finnast upplýsingar um áframhaldandi samvinnu hljómsveitarinnar og kórsins eftir það – og þar með lauk hugsanlega sögu hljómsveitar Skarphéðins Einarssonar.














































