Hljómsveit Stefáns P. (1976-)

Hljómsveit Stefáns P.

Líklega hafa fáar hljómsveitir á Íslandi verið jafn langlífar og Hljómsveit Stefáns P. Þorbergssonar flugmanns en sveit hans hefur starfað nokkuð samfleytt frá árinu 1976 en stopulla síðustu áratugina, hún hefur þó aldrei hætt störfum. Sveitin hefur e.t.v. ekki verið mest áberandi eða vinsælasta hljómsveitin hvað útgefna tónlist varðar en hún hefur þó sent frá sér plötur og efni bæði ein og sér sem og í samstarfi við aðra, og líkast til hefur sveitin leikið á þúsundum dansleikja.

Hljómsveit Stefáns P. var stofnuð haustið 1976 og fyrst um sinn lék sveitin aðallega á árshátíðum og þess konar einkasamkvæmum, sem hún átti reyndar eftir að gera alla tíð. Það var svo í upphafi árs 1977 að sveitin birtist í auglýsingum dagblaðanna en um það leyti fór hún að leika á skemmtistöðum höfuðborgarsvæðisins eins og í Glæsibæ og Þórscafe, reyndar fór hún einnig um vorið til Kanarí til að leika fyrir Íslendinga í sólarlandaferðum. Sveitin var þá skipuð þeim Stefáni hljómsveitarstjóra sem lék á gítar og hljómborð, Gunnari Bernburg bassaleikara og Guðmundi Garðari Hafliðasyni trommuleikara, Már Elíson trommuleikari og söngvari hafði upphaflega verið í sveitinni en hætti í mars 1977 til að ganga til liðs við Galdrakarla og hafði Guðmundur tekið sæti hans. Guðmundur staldraði ekki lengi við því að Grétar Guðmundsson (Meistari Tarnús) kom í hans stað um sumarið og lék með sveitinni fram á haustið.

Stefán P. og félagar 1977

Þetta sumar (1977) fór hljómsveitin í fyrsta sinn í sveitaballatúr um landsbyggðina en þá var vinsælt að ballhljómsveitir kepptust um hylli dreifbýlisbúa ásamt meðfylgjandi skemmtikröftum, með sveitinni voru í för töframaðurinn Baldur Brjánsson, Guðmundur Guðmundsson eftirherma og búktalari og erlend nektardansmær (sem skemmti tvær helgar með þeim) en hópurinn ferðaðist um landið undir yfirskriftinni Stuðkvöld.

Um haustið 1977 urðu allsherjar breytingar á skipan tríósins, Skúli Einarsson trommuleikari og söngvari og Atli Viðar Jónsson bassaleikari og söngvari leystu þá Grétar og Gunnar af hólmi og hélt sveitin sig mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þess og lék þar um veturinn á stöðum eins og Glæsibæ, Klúbbnum og Loftleiðum, auk þess sem þeir félagar höfðu feikinóg að gera við árshátíða-, þorrablóta- og einkasamkvæmaspilamennsku. Enn urðu breytingar á skipan sveitarinnar haustið 1978 þegar Atli Viðar hætti í henni og Sigurður Björgvinsson bassaleikari kom í hans stað.

Næstu árin var nokkuð föst rútína í spilamennsku hljómsveitarinnar, yfir veturinn voru það mest árshátíðirnar og þorrablótin og þar var jafnvel farið út á landsbyggðina, fæstar þeirra uppákoma voru haldnar á skemmtistöðum höfuðborgarsvæðisins heldur voru félagsheimili átthagafélaganna á höfuðborgarsvæðinu sem og samkomuhús landsbyggðarinnar nýtt undir þá spilamennsku. Á sumrin voru það hins vegar sveitaböllin og stundum var þá blásið til sóknar með skemmtikrafta sér við hlið – þannig var sumarið 1979 farið með sjö vikna balltúr um landið undir yfirskriftinni Sumar ´79 og Sumar ´80 ári síðar en það ár (1980) féllu aðeins niður tvær helgar í spilamennsku hjá sveitinni yfir allt árið,

Hljómsveitin um 1980

Tríóið tók einnig þátt í annars konar dansleikjatengdum verkefnum og t.a.m. fór hún í samstarf við Dagblaðið, Ferðaskrifstofuna Úrval og Hljómplötuútgáfuna með Fegurðarsamkeppni Íslands en fyrirkomulag þeirrar keppni var með þeim hætti þá að undankeppnir voru haldnar á um tuttugu stöðum víðs vegar um landið með tilheyrandi húllumhæi og dansleikjum. Þá kom sveitin að ýmsum ferðakynningum ferðaskrifstofa, jólaböllum og hvers konar uppákomum öðrum. Snemma árs 1981 hætti Skúli trommuleikari í hljómsveitinni og gamalreyndur trommari, Ólafur Bachmann tók sæti hans og söng þá einnig.

Spilamennskan var áfram með jöfnum hætti, mikið var að gera allt árið í kring og líklega eru fá félagsheimili og samkomuhús á landinu sem sveitin lék ekki í. Hljómsveit af þessari stærðargráðu þótti góður kostur, tríó voru mun ódýrari en fjögurra eða fimm manna sveitir sem voru auk þess með rótara, rútu og fyrirferðameiri græjur en auðvitað hafði það líka áhrif að sveitin þótti halda uppi miklu stuði á dansleikjum sínum og leika tónlist fyrir allan aldur en aldurskiptingin á böllunum var á þessum tíma ennþá mjög dreifð. Sveitin hélt stundum böllin sjálf, leigði þá félagsheimili og sá sjálf um alla vinnuna en oftast voru þeir þættir í höndum staðarhaldara og félaga á hverjum stað. Mjög oft voru fastir viðburðir í dagatalinu hjá sveitinni s.s. áðurnefnd þorrablót en einnig réttaböll, vorfagnaðir, töðugjöld, sjómannadagsböll, Jónsmessuböll, góugleði, vetrarfagnaður og áramótadansleikir svo dæmi séu nefnd, og mjög oft var sveitin ráðin aftur og aftur á sömu böllin ár eftir ár, þannig var hún t.d. lengi vel fastur liður á Kirkjubæjarklaustri um verslunarmannahelgina en lék einnig þrívegis á þjóðhátíð í Eyjum (1982, 1984 og 1986), kántríhátíð á Skagaströnd, Sognhátíð í Ölfusi og fleiri hátíðum. Sveitin fór jafnframt utan til að leika á Íslendingasamkomu í Washington árið 1984 og hefur síðan þá leikið um fimmtán sinnum á slíkum dansleikjum erlendis, bæði í Bandaríkjunum (Washington, New York, Florida og Seattle (ásamt Önnu Vilhjálms) og í Evrópu (Luxemborg, Belgíu, Svíþjóð og Írlandi).

Hljómsveit Stefáns P. 1982

Haustið 1982 kom í fyrsta sinn út plata sem hafði að geyma leik hljómsveitarinnar, þetta var jólaplatan Í skóinn sem kom út í nafni Guðmundar Rúnars Lúðvíkssonar sem þá bjó í Vestmannaeyjum en sveitin lék oft þar á þessum árum og hafði heilmiklar tengingar við Eyjar á þessum tíma m.a. í gegnum Ólaf trommuleikara. Platan hafði verið tekin upp í Stúdíó Nema hjá Ólafi Þórarinssyni (Labba í Glóru) og þar var að finna klassíska jólasmelli fyrir börn sungin af Guðmundi Rúnari og barnakór en hljómsveitin sá um undirleik – þess má geta að jólaborðspil fylgdi plötunni. Í skóinn, sem þarna kom út í vínylplötuformi var svo endurútgefin á kassettu fimm árum síðar, örlítið breytt að efni.

Fleiri plötur fylgdu í kjölfarið næstu árin, árið 1983 lék sveitin á tveggja laga plötu Vestmannaeyingsins Ágústs Stefánssonar – Gústi en á henni var að finna lögin Nú meikarðu það Gústi / Krúttið, sem bæði voru eftir Bjartmar Guðlaugsson, ungan mann sem þá var að byrja að vekja athygli fyrir tónsmíðar sínar. Fyrrnefnda lagið naut töluverðra vinsælda.

Árið 1985 komu út tvær kassettur með hljómsveitinni, sú fyrri bar titilinn „…sungin og leikin“ en á henni var að finna slagara úr ýmsum áttum af prógrammi sveitarinnar og m.a. voru þar lagasyrpur. Einnig má þar heyra lagið Út í Elliðaey en það lag hafði verið valið þjóðhátíðarlag Vestmannaeyinga árið 1980 og kom út þarna í fyrsta sinn. Síðar þetta sama ár (1985) kom út sex laga kassetta með sveitinni undir heitinu Gaman og alvara en hún hafði að geyma lög og texta eftir Kristin Bjarnason sem hafði samið þjóðhátíðarlag Eyjamanna 1983 en það var einmitt titillag kassettunnar – Gaman og alvara. Þessi útgáfa vakti litla athygli en kassettan kom líklega út í litlu upplagi og var e.t.v. einungis dreift í Vestmannaeyjum. Tríóið var allan þennan tíma skipað Stefáni, Sigurði og Ólafi, Albert Pálsson hljómborðsleikari hafði leikið með sveitinni eina helgi árið 1977 en varð ekki liðsmaður hennar.

Stefán P. og félagar um 1990

Um og eftir miðjan níunda áratuginn breyttust áherslur lítið eitt, Ásgeir Óskarsson trommuleikari hóf að leika með sveitinni í stað Ólafs Bachmann árið 1985 og í framhaldinu lék sveitin meira á höfuðborgarsvæðinu en hún hafði þá gert um árabil. Þeir félagar léku m.a. í Templarahöllinni, Þórscafe, Hótel Borg og Hollywood en voru þó eitthvað áfram á ferðinni úti á landsbyggðinni yfir sumartímann, héraðsmótin voru ennþá við lýði og svo auðvitað sveitaböllin. Aftur urðu svo trommuleikaraskipti í sveitinni þegar Ragnar Sigurjónsson (Gösli) leysti Ásgeir af hólmi vorið 1988.

Með bjórmenningunni sem brast á undir lok áratugarins færðist sveitin meira inn á þess konar staði s.s. á þéttbýlisstöðum eins og Ísafirði, Akranesi og Keflavík en lék eins og fyrr mikið á árshátíðum, þorrablótum og slíkum samkomum bæði á höfuðborgarsvæðinu og dreifbýlinu. Enn urðu breytingar á skipan sveitarinnar haustið 1989 en þá kom Ari Jónsson söngvari inn í hana og lék þá jafnframt á trommur, um sama leyti kom Hallberg Svavarsson bassaleikari (og söngvari) einnig í sveitina í stað Sigurðar. Hljómsveitin virðist á nýjum áratug hafa fært sig enn meira inn í þéttbýliskjarnana á suðvesturhorninu, einkum yfir vetrartímann og nú lék hún á stöðum eins og Dansbarnum við Grensásveg, Danshöllinni (áður Þórscafe), Gullöldinni, Feita dvergnum og jafnvel Hótel Sögu – þá lék hún sem fyrr reglulega erlendis á samkomum Íslendinga.

Þannig var sveitin skipuð næstu árin, allt til 1993 þegar gítarleikarinn Björgvin Gíslason bættist í hópinn og starfaði með þeim félögum til 1995, hann var t.a.m. liðsmaður sveitarinnar þegar lagið Rokk og ról kom út með henni á safnplötunni Já takk, sem Japis gaf út sumarið 1994 en aðrir liðsmenn sveitarinnar voru þá Stefán, Hallberg og Ari en Ásgeir Óskarsson var einnig með á þeim upptökum sem slagverksleikari.

Hljómsveitin undir lok síðustu aldar

Vorið 1995 var Stefán orðinn fastráðinn flugstjóri og því gafst minni tími fyrir tónlistina, hann hafði ætlað sér að leggja hljóðfæraleikinn á hilluna og snúa sér alfarið að fluginu en alltaf var nóg af tónlistartengdum verkefnum í boði fyrir hljómsveit hans svo hann ákvað að spila þegar færi gæfust. Hann minnkaði því nokkuð við sig hvað sveitina varðaði og hafði bassaleikarann Pétur Hjálmarsson með sér ásamt hinum og þessum trommuleikurum þegar á þurfti að halda, þeirra á meðal voru Ásgeir Óskarsson og Ragnar Sigurjónsson sem áður höfðu starfað með Stefáni. Þannig störfuðu þeir Stefán og Pétur saman allt fram undir lok aldarinnar þegar Hallberg leysti þann síðarnefnda af hólmi árið 1999, og störfuðu þeir félagar saman allt til 2022 þegar Hallberg lést. Frá árinu 2003 hafði hljómborðsleikarinn Úlfar Sigmarsson jafnframt leikið með sveitinni en sveitin hefur á síðustu árum mestmegnis leikið á höfuðborgarsvæðinu á stöðum eins og Fógetanum, Þórscafe, Næturgalanum í Kópavogi, Ásgarði í Glæsibæ og þess konar stöðum en einnig léku þeir Stefán og Hallberg oft tveir á Ránni í Keflavík, mest var þetta árshátíða- og veisluspilamennska. Um tíma í kringum aldamótin söng Anna Vilhjálms nokkuð með þeim félögum og lék sveitin m.a. undir á skemmtidagskrá sem tileinkuð var 40 ára söngafmæli hennar.

Hljómsveit Stefáns P. sendi frá sér plötuna Flottur kallinn! sumarið 2013 og í tilefni af því kom Guðmundur Haukur Jónsson hljómborðsleikari og söngvari fram með sveitinni um tíma. Tólf af átján lögum plötunnar höfðu komið út á fyrri útgáfum sveitarinnar en hin sex lögin höfðu þá nýverið verið hljóðrituð en í anda þess sem sveitin hafði verið að gera áður. Um nokkurra mánaða skeið síðla árs 2014 og í byrjun árs 2015 störfuðu gömlu félagarnir Sigurður Björgvinsson bassaleikari og Ólafur Bachmann trommuleikari aftur með Stefáni (auk Guðmundar Hauks um hríð einnig) en annars hefur sveitin yfirleitt verið skipuð þeim Stefáni, Hallberg og Úlfari síðustu árin.

Hljómsveit Stefáns P. er í raun enn starfandi dúett þeirra Stefáns og Úlfars en þeir kalla sig í dag Hverabræður, þess má geta að lokum að þegar þetta er ritað hefur sveitin spilað á Jónsmessuhátíð á Suðurlandi síðan 1996, alls 28 ár í röð.

Efni á plötum