
Hlynur Höskuldsson
Þá er komið að afmælisbörnum dagsins sem eru fjögur talsins að þessu sinni:
Alma (Goodman) Guðmundsdóttir söngkona er fertug í dag og fagnar því stórafmæli. Alma er hvað kunnust fyrir framlag sitt til söngsveitarinnar Nylons (síðar The Charlies) en hún kom einnig lítillega við sögu Eurovision undankeppninnar hér heima nýlega, hún býr nú og starfar í Bandaríkjunum.
Viðar Gunnarsson bassasöngvari er sjötíu og fjögurra ára á þessum degi. Hann hafði sungið með nokkrum kórum áður en hann hóf söngnám kominn fast að þrítugu, hann fór svo til framhaldsnáms í Svíþjóð (og síðar Ítaliu) og eftir að hann kom heim aftur söng hann ýmis óperuhlutverk hér heima áður en hann fékk óperusamning í Þýskalandi um fertugt og bjó þar og starfaði lengi áður en hann kom aftur heim. Söng Viðars má heyra á fjölda platna.
Vilhjálmur (Björgvin Guðmundsson) frá Skáholti (1907-63) hefði einnig átt þennan afmælisdag en hann var fyrst og fremst ljóðskáld og hafa mörg ljóða hans orðið þekkt í flutningi tónlistarmanna. Þar má nefna Ó borg mín borg, Jesús kristur og ég og Herbergið mitt.
Og að lokum er hér nefndur tónlistarmaðurinn Hlynur Höskuldsson (fæddur 1953), hann lék á bassa (og hljómborð) með fjölmörgum hljómsveitum og þeirra þekktust var án efa Silfurtónar en einnig má nefna sveitir eins og Dá, Eilífð, De Vunderfoolz, Dýpt, Fífí & Fófó, Jamisus og Barbie. Hlynur lést árið 2023.
Vissir þú að stórsöngvarinn Ólafur Magnússon frá Mosfelli lék oft álfakonunga á áramóta- og þrettándaviðburðum þar sem hann tók lagið?














































