
Hljómsveit Theo Andersen
Veturinn 1946-47 kom danskur fiðluleikari, Theo Andersen hingað til lands og kenndi á fiðlu við tónlistarskólann á Akureyri. Hann tók virkan þátt í tónlistarlífi bæjarins og setti m.a. á stofn hljómsveit sem var húshljómsveit á Hótel Norðurlandi og gekk undir nafninu Hljómsveit Theo Andersen eða Theo Andersen‘s orkester.
Ekki liggja fyrir miklar upplýsingar um sveitina en hún mun hafa verið kvintett og Friðgeir Axfjörð var gítarleikari hennar, sjálfur lék Theo Andersen á fiðlu – óskað er eftir frekari upplýsingum um meðlima- og hljóðfæraskipan sveitarinnar.
Sveitin lék á hótelinu um nokkurra mánaða skeið og einnig eitthvað utan þess, m.a. á skemmtun sem Leikfélag Akureyrar stóð fyrir í tilefni af 30 ára afmæli sínu. Það var svo um haustið 1947 að þær fréttir bárust að félagsmálaráðuneytið hefði synjað sveitinni um atvinnuleyfi væntanlega á þeim forsendum að um erlent vinnuafl væri að ræða sem bendir til að sveitin hafi aðallega verið skipuð erlendum tónlistarmönnum, Kvartanir höfðu borist frá tónlistarmönnum í Reykjavík sem höfðu ekkert með þessa sveit að gera en norðlenskir tónlistarmenn nyrðra höfðu engar athugasemdir gert við starfsemi sveitarinnar á Hótel Norðurlandi. Sveitin hætti því störfum.














































