Hljómsveit Þorvaldar Björnssonar (1970-73 / 1989-2005)

Þorvaldur Björnsson harmonikkuleikari, tónmenntakennari, organisti og kórstjóri starfrækti hljómsveitir á tveimur tímaskeiðum, annars vegar um og upp úr 1970 og hins vegar um og eftir 1990.

Fyrri hljómsveit Þorvaldar Björnssonar lék um nokkurra ára skeið í Ingólfcafe og spilaði þar fyrir gömlu dönsunum. Þessi sveit tók til starfa þar vorið 1970 og lék til ársloka 1973 en upplýsingar um hana eru af skornum skammti og reyndar finnst hvergi neitt um meðlima- eða hljóðfæraskipan hennar nema að Grétar Guðmundsson söng með henni lengst af – hann var hugsanlega einnig trommuleikari sveitarinnar. Hér er því óskað eftir frekari upplýsingum um þessa fyrri hljómsveit Þorvaldar.

Reyndar eru heimildir um að Þorvaldur hafi starfrækt hljómsveit sem lék á styrktardansleik meistarafélags húsasmiða árið 1982 og einnig á einhverri samkomu tveimur árum síðar en það er allt eins líklegt að þær sveitir hafi verið settar saman einvörðungu fyrir þá viðburði.

Undir lok níunda áratugarins hafði Þorvaldur verið öflugur í harmonikkusamfélaginu á höfuðborgarsvæðinu og stjórnaði m.a. hljómsveit Félags harmonikuunnenda í Reykjavík um árabil. Tengt því starfrækti Þorvaldur hljómsveit í eigin nafni, fyrst að því er virðist í Hreyfilshúsinu árið 1989 en þá var hann einnig með sveit ásamt Óskari Guðmundssyni, en frá og með 1993 lék sveit hans mestmegnis á samkomum félags harmonikuunnenda. Þar virðist bæði hafa verið um dansleiki og svokallaða skemmtifundi að ræða innan félagsins og t.a.m. lék sveitin á nokkrum slíkum fundum sem voru helgaðir tónlist Oliver Guðmundssonar, Jóni Jónssyni á Hvanná og sjálfsagt fleirum. Söngvarar með sveitinni voru ýmsir, Kolbrún Sveinbjörnsdóttir söng lengst með sveitinni en ýmsir karlsöngvarar komu fram með henni einnig s.s. Einar Júlíusson, Björn Þorgeirsson, Barði Ólafsson og Grétar Guðmundsson. Engar upplýsingar er hins vegar að finna um hljóðfæraleikara sveitarinnar aðra en Þorvald.

Hljómsveit Þorvaldar Björnssonar starfaði til ársins 2005.