Hljómur [2] (2006-)

Hljómur úr Mosfellsbæ

Pöbbadúettinn Hljómur er vel þekktur í Mosfellsbæ enda hefur hann leikið við ótal skemmtanir og aðrar uppákomur í bænum allt síðan 2006 að minnsta kosti og hefur t.a.m. verið ómissandi liður í dagskrá bæjarhátíðarinnar Í túninu heima.

Það eru þeir Hilmar Gunnarsson og Ágúst Bernharðsson Linn sem skipa Hljóm en þeir syngja báðir og leika á gítara. Þeir félagar hafa mestmegnis leikið á heimavelli í Mosfellsbænum, s.s. á stöðum eins og Draumakaffi, Cafe Viktor, Hvíta riddaranum og Kaffi Kidda rót en einnig í Hlégarði og á hlöðuballi í Laxnesi á stærri dansleikjum – þá ásamt fleirum, og svo á áðurnefndri bæjarhátíð Í túninu heima. Dúettinn hefur stöku sinnum leikið utan bæjarfélagsins eftir því sem heimildir herman, nokkrum sinnum m.a. á Hellishólum í Fljótshlíð um verslunarmannahelgar og svo fáeinum sinnum á stöðum eins og Sólon í Reykjavík. Þess má geta að dúettinn kemur lítillega við sögu á plötu Steinda jr. – Steindinn okkar: Án djóks, samt djók.

Hljómur er enn starfandi eftir því sem best verður komist.