Hljómur [1] (1990-)

Hljómur 2001

Samkórinn Hljómur hefur verið starfræktur á Akranesi síðan 1990 en hann er kenndur við félagsskapinn FEBAN, félag eldri borgara á Akranesi og nágrenni sem hafði verið stofnað ári fyrr.

Afar takmarkaðar upplýsingar er að finna um sögu kórsins frá fyrstu árum hans og t.a.m. liggur ekkert fyrir um stjórnendur hans fyrstu árin. Árið 1997 tók Lárus Sighvatsson við stjórn Hljóms og stýrði honum næstu árin, þá hafði Ásdís Richardsdóttir verið undirleikari kórsins frá upphafi og var það sjálfsagt eitthvað áfram. Vortónleikar voru fastur liður í starfsemi kórsins þarna en einnig söng kórinn reglulega á aðventunni á Akranesi og tvívegis á hverjum vetri söng hann við messur í Akraneskirkju. Þá hefur kórinn alla tíð verið virkur í samstarfi við aðra kóra eldri borgara á suðvesturhorni landins, tekið þátt í kóramótum þeirra og haldið sjálfur slík mót reglulega í gegnum tíðina. Ekki liggja fyrir upplýsingar um stærð kórsins í gegnum árin en hann hefur þó jafnan verið fjölmennur og á einhverjum tímapunktum hafa um fimmtíu söngfélagar verið í honum.

Sveinn Arnar Sæmundsson tók við kórstjórninni af Lárusi og um skamma hríð var Laufey Geirsdóttir einnig stjórnandi kórsins áður en Katrín Valdís Hjartardóttir tók við. Katrín hélt um stjórnvölinn til ársins 2015 að minnsta kosti en það ár sendi kórinn frá sér tíu laga plötu sem hljóðrituð hafði verið í Tónbergi á Akranesi, platan bar heitið Hljómur: Kór eldri borgara á Akranesi – 10 sönglög 2015, ekki er ljóst hvort um opinbera útgáfu er að ræða.

Hljómur árið 2013

Lárus Sighvatsson tók aftur við stjórn Hljóms um eða upp úr miðjum öðrum áratug tuttugustu og fyrstu aldarinnar, og auk þess að fylgja fyrri hefðum í starfseminni söng kórinn nú á tónleikum sem tileinkaðir voru tónlist Óðins G. Þórarinssonar árið 2018 og svo aftur 2024, þá kom hann einnig fram á tónleikum í Eldborg ásamt fleiri kórum.

Líkt og hjá öðrum kórum landsins lá starfsemi Hljóms niðri á meðan Covid heimsfaraldrinum stóð 2020 og 21 en hefur fyrir löngu aftur hafið fullt starf undir stjórn Lárusar, og er því starfsemi kórsins í fullum gangi.

Efni á plötum