
Hornaflokkur Kópavogs
Hornaflokkur Kópavogs starfaði um tveggja áratuga skeið undir stjórn Björns Guðjónssonar, sveitin lék líklega á nokkur hundruð tónleikum og öðrum samkomum hér á landi og erlendis auk þess að koma við sögu á plötum.
Björn Guðjónsson hafði stjórnað Skólahljómsveit Kópavogs frá stofnun hennar 1966 en hún var skipuð börnum og unglingum á grunnskólaaldri, þegar meðlimir þeirrar sveitar voru ekki lengur gjaldgengir í skólahljómsveitinni sökum aldurs kom upp sú hugmynd að stofna sveit sem hefði að geyma fyrrum meðlimi sveitarinnar og þannig varð Hornaflokkur Kópavogs til vorið 1974.
Sveitinni var ekkert endilega ætlað að leika hefðbundna lúðrasveitatónlist heldur allt eins djassskotna tónlist og í anda Herb Alpert og fleiri, jafnvel popptónlist. Hornaflokkurinn varð strax nokkuð fjölmenn sveit og um þrjátíu manns skipuðu hana árið 1975 en algengt var að um fjörutíu manns skipuðu hana síðar.

Hornaflokkur Kópavogs 1979
Sveitin spilaði töluvert bæði á tónleikum með Skólahljómsveit Kópavogs en varð einnig sjálfstæð eining sem lék á alls kyns uppákomum um höfuðborgarsvæðið og víðar, t.a.m. lék hún mikið á íþróttaviðburðum s.s. knattspyrnuleikjum (t.d. landsleikjum) sem og á fimleikasýningum og hestamannamótum svo dæmi séu nefnd – þá lék hornaflokkurinn margoft við opinberar heimsóknir og viðhafnarviðburði hjá hinu opinbera auk annarra verkefna enda þótti hún feikilega öflug undir stjórn Björns. Þess má geta að bæði hornaflokkurinn og skólalúðrasveitin voru mjög áberandi í kosningabaráttu forsetaframbjóðendanna fyrir forsetakosningarnar 1980 en þær léku þá á óteljandi kosningafundum og öðrum tengdum samkomum.
Árið 1978 var stofnuð önnur sveit innan Hornaflokks Kópavog, Big Band Kópavogs (sem lesa má um annars staðar á Glatkistunni) en hún átti eftir að starfa um nokkurra ára skeið undir stjórn Gunnars Ormslev o.fl. Sveitirnar tvær léku oft saman á tónleikum auk sjálfrar skólahljómsveitarinnar. Sveitirnar fóru einnig í fjölmörg skipti í tónleikaferðir innanlands og utan, hér má nefna ferðir til Finnlands, Svíþjóðar, Skotlands, Austur-Þýskalands, Noregs og víðar þar sem sveitin tók einnig þátt í lúðrasveitamótum.

Hornaflokkurinn í Austur-Þýskalandi 1985
Hornaflokkur Kópavogs kom við sögu á fáeinum plötum með hann starfaði, fyrst árið 1980 þegar út kom plata á vegum Kópavogs kaupstaðar undir heitinu Kópavogur: Vagga börnum og blómum en þar flutti sveitin syrpu með lögum eftir Jón Múla Árnason. Næst kom út safnplata á vegum Lista- og menningarráðs Kópavogs árið 1987 undir titlinum Einn tveir, einn tveir, einn tveir þrír fjór, en þar átti sveitin fimm af þeim fimmtán lögum sem á plötunni voru. Að síðustu er hér nefnd lúðrasveitasafnplatan Landið hljómar sem kom út á vegum Sambands íslenskra lúðrasveita árið 1989, þar átti hornaflokkurinn eitt lag.
Hornaflokkur Kópavogs virðist hafa starfað til ársins 1991 undir stjórn Björns Guðjónssonar en þá kemur sveitin síðast við sögu í fréttatilkynningum dagblaðanna, hún gæti þó hafa starfað eitthvað lengur en það.














































