Hornaflokkur Vestmannaeyja (1904-09 / 1911-16)

Saga lúðrasveita í Vestmannaeyjum er býsna löng en þar hafa verið starfandi ótal lúðrasveitir í gegnum tíðina með mislöngum hléum inni á milli. Fyrst slíka sveit sinnar tegundar í Eyjum var stofnuð í upphafi 20. aldarinnar og starfaði í um tólf ár, reyndar þó ekki alveg samfleytt.

Það var Brynjólfur Sigfússon sem átti heiðurinn að því að þessi fyrsta lúðrasveit í Vestmannaeyjum var stofnuð árið 1904 en hún hlaut nafnið Hornaflokkur Vestmannaeyja, Brynjólfur varð síðar kunnur organisti, kórstjóri og tónskáld en var lengst af kaupmaður. Stofnmeðlimir sveitarinnar voru sex talsins, Pétur Lárusson trompetleikari, Guðni Jóhannsson Johnsen althornleikari, Árni Árnason kornetleikari, Lárus Jóhannsson Johnsen tenórsaxófónleikari, Páll Ólafsson [?] og svo Brynjólfur sjálfur sem lék á bassahorn, hann var sjálfur innan við tvítugt þegar sveitin var stofnuð en fenginn hafði verið lúðraþeytari (Gísli Guðmundsson) úr Reykjavík til að leiðbeina honum í upphafi. Síðar áttu um tíu hljóðfæraleikarar til viðbótar eftir að starfa með sveitinni en ekki er ljóst hvort þeir bættust við sem hrein viðbót eða hvort aðrir viku í þeirra stað.

Ekki finnast heimildir við hvaða tækifæri hornaflokkurinn lék opinberlega en hann mun hafa alloft leikið fyrir bæjarbúa við góðar undirtektir, sveitin starfaði samfleytt um fimm ára skeið eða til ársins 1909 en þá hætti hún störfum. Tveimur árum síðar eða 1911 fluttist Brynjólfur tímabundið til Kaupmannahafnar en hann var þar í tónlistarnámi en um það leyti hófu aðrir meðlimir sveitarinnar að æfa á nýjan leik undir stjórn Sæmundar Jónssonar og lék þá bæði á Þjóðhátíð og árlegum álfadansleik á þrettándanum. Þegar Brynjólfur kom aftur heim árið 1912 fylgdi honum drifkraftur og sveitin hélt áfram starfi sínu undir stjórn hans en að þessu sinni gekk hún einnig undir nafninu Lúðrafélag Vestmannaeyja, hún starfaði í fjögur ár til viðbótar eða til ársins 1916 þegar Brynjólfur gaf ekki kost á sér lengur og því lagðist starfsemi sveitarinnar niður. Ekki liðu þó nema tvö ár þar til aftur var stofnuð sambærileg hljómsveit en hún hlaut nafnið Lúðrasveit Vestmannaeyja og varð sú fyrsta af nokkrum sem gekk undir því nafni.