Hornaflokkur var starfræktur á Þingeyri um þriggja ára skeið að minnsta kosti, á árunum 1910 til 13. Flokkurinn mun hafa verið stofnaður 1910 en stærsta verkefni hans var að leika á hátíðarhöldum í tengslum við aldar afmæli sjálfstæðishetjunnar Jóns Sigurðssonar sumar 1911 en þá var reistur minnisvarði um hann á Rafnseyri (Hrafnseyri) við Arnarfjörð þar sem hann fæddist.
Hornaflokkurinn (sem virðist ekki hafa hlotið neitt sérstakt nafn en gengið bæði undir nöfnunum Hornaflokkur Þingeyrar og Lúðrasveit Þingeyrar) starfaði líklega fyrst um sinn undir stjórn Hafliða Jónssonar en lék við hátíðarhöldin á Rafnseyri undir stjórn Bjarna Péturssonar, sveitin starfaði áfram eftir það undir stjórn hans þar til Árni Magnússon tók við sumarið 1912.
Fyrir liggur að flokkurinn var enn starfandi árið 1913 en hætti að öllum líkindum störfum það sama ár.

