
Hótel Björninn
Hótel Björninn í Hafnarfirði var vinsæll skemmtistaður en dansleikir voru haldnir þar á tuttugu ára tímabili, frá því fyrir 1930 og líklega allt til 1950. Á stríðsárunum var reyndar talað um staðinn sem alræmda búllu.
Ágúst Flygenring kaupmaður í Hafnarfirði hafði látið byggja húsið árið 1906 og gekk það iðulega undir nafninu Flygenringhús framan af en það stóð á Vesturgötu 2, á horni Vesturgötu og Hafnarfjarðarvegar. Seint á þriðja áratugnum, líklega í kringum 1928 keypti Guðrún Eiríksdóttir hins vegar húsið en hún hafði þá rekið hótel á öðrum stað í Hafnarfirði, og breytti húsinu í hótel þar sem voru um átta gistiherbergi og salur sem tók um 160 manns. Hótelið nefndi hún Björninn eftir fjallinu Þorbirni við Grindavík en Guðrún kom upphaflega frá Grindavík.
Guðrún hóf strax að ráða tónlistarmenn og hljómsveitir af ýmsum stærðum og gerðum til að leika í húsinu – jafnvel erlenda tónlistarmenn og staðurinn varð strax mjög vinsæll í Hafnarfirði sem þá var auðvitað nokkuð fjarri glaumi Reykjavíkur, hins vegar sótti alltaf nokkuð af Reykvíkingum staðinn. Mjög algengt var að félagasamtök og klúbbar héldu dansleiki þar, s.s. árshátíðir og slíkt, og reyndar voru slík félög einnig stofnuð þar.

Björninn í Hafnarfirði
Ýmsir þekktir tónlistarmenn léku í húsinu og oft voru þetta hljómsveitir settar saman fyrir dansleiki þar og léku því undir nöfnum eins og Hljómsveit Bjarnarins eða í nafni skemmtiklúbba sem héldu dansleikina s.s. Hljómsveit Adlon / Adlon bandið, sem var einn þessara klúbba. En hér má nefna staka tónlistarmenn eins og Jónatan Ólafsson, Stefán Þorleifsson, Svein Ólafsson, Árna Björnsson, Óskar Cortes, Magnús Randrup, Gunnar Jónsson, Pétur Bernburg og Vilhjálm Guðjónsson svo einhver íslensk nöfn séu nefnd en einnig má nefna ungverska sellóleikarann Vincent Farkas sem var með hljómsveit á Birninum um miðjan fjórða áratuginn. Þess má svo og geta að um og eftir stríð var mun algengara að hljómsveitirnar sem ráðnar voru til að leika í húsinu væru einnig starfandi annars staðar og hér eru nefndar t.a.m. Blástakkatríóið, Swingbandið og Hljómsveit Árna Ísleifssonar í því samhengi.
Árið 1938 seldi Guðrún Hótel Björninn og Svava Jónsdóttir keypti húsið og rak staðinn um eins árs skeið áður en Ólafur Guðlaugsson keypti það en Ólafur hafði verið á Hótel Borg og þekkti því hótelrekstur býsna vel, hann átti eftir að reka Björninn til loka.

Hótel Björninn eftir að húsinu var breytt
Á stríðsárunum komu Bretarnir til Íslands vorið 1940 og voru fyrirferðamiklir í Hafnarfirði, þeir nánast lögðu hótelið undir sig og um tíma fékk staðinn á sig fremur neikvæða mynd – kallaður Hongy tong af hermönnunum og þar þreifst alræmt sukk og svínarí. Norskir hermenn bættust í hópinn fljótlega en þegar bandaríski herinn tók við af Bretunum skánaði ástandið heilmikið. Þegar ástandið var sem verst auglýsti Ólafur dansleiki sérstaklega ætlaða Íslendingum eingöngu og á þeim kvöldum var hermönnum meinaður aðgangur að Birninum. Hótel Björninn mun hafa starfað til ársins 1950, um tíma reyndar síðustu árin undir nafninu Hótel Þröstur en svo aftur undir Bjarnarnafninu í lokin, og þá var heldur farið að halla undan fæti í rekstrinum.
Kaupfélag Hafnarfjarðar keypti húsið og var með starfsemi í því um tíma en það var svo rifið árið 1970, þá hafði húsið verið minnkað einhvern tímann á sjöunda áratugnum – strýta eða turn með svokölluðu næpuþaki á öðrum gafli þess verið tekinn af til að rýmka fyrir Reykjavíkurveginum sem var þá alveg uppi við húsið, en sá hluti hússins hafði einmitt sett mestan svip á það. Þess má geta að húsið (í upprunalegri mynd) er fyrirmynd eins þeirra húsa sem byggð voru í nýjum miðbæ Selfoss löngu síðar.














































