Hounds (1967-70)

Hounds

Unglingahljómsveitin Hounds starfaði í Vestmannaeyjum undir lok sjöunda áratugarins og gerðist reyndar svo fræg að leika uppi á meginlandinu einnig.

Hounds var stofnuð árið 1967 og mun hafa gengið undir nafninu Opera í upphafi, meðlimir sveitarinnar voru þeir Birgir Þór Baldvinsson trommuleikari og söngvari, Hafsteinn Ragnarsson gítarleikari, Hafþór Pálmason gítarleikari og Reynir Carl Þorleifsson bassaleikari, einnig mun bassaleikarinn Ólafur Már Sigurðsson hafa komið við sögu hennar á upphafsárum hennar. Þegar Birgir Þór trommuleikari sagði skilið við sveitina tók Magnús Emilsson við af honum en Hafþór gítarleikari tók þá að sér sönginn. Sveitin var líklega þannig skipuð til ársins 1970 þegar Hafþór hætti í henni en Bjartmar Guðlaugsson gerðist þá söngvari sveitarinnar og var það frumraun hans á því sviði.

Hounds lék fyrst um sinn á skólaböllum og stúkufundum í Vestmannaeyjum en sumarið 1969 lék sveitin fyrst á fastalandinu, fyrst í Tónabæ og svo í Glaðheimum í Vogum og í Glaumbæ sama kvöld og Flowers lék þar í síðasta sinn áður en hún hætti – skömmu síðar var Trúbrot stofnuð upp úr henni og Hljómum.

Hounds starfaði til ársins 1970.