Hrafnar [3] (2008-)

Hrafnar árið 2009

Hrafnar er hljómsveit sem á sér í raun heilmiklu forsögu því um er að ræða upprunalegu útgáfuna af Pöpum frá Vestmannaeyjum sem gerði garðinn frægan um skeið. Sveitin hefur sent frá sér plötur og vakið heilmikla athygli fyrir nálgun sína á þjóðlagatónlist.

Papar höfðu verið stofnaðir árið 1986 og starfaði sú sveit allt til 2008, þó með miklum mannabreytingum svo aðeins var einn meðlimir upprunalegu sveitarinnar enn eftir í henni. Hermann Ingi Hermannsson gítarleikari og söngvari og bræðurnir Vignir banjóleikari og Georg bassaleikari Ólafssynir sem höfðu verið meðal upphaflegu meðlima Papa stofnuðu árið 2007 hljómsveit með þjóðlagaívafi undir nafninu Keltar, sú sveit hafði ekki starfað lengi þegar þeir félagar uppgötvuðu árið 2008 að önnur sveit var þá fyrir undir því nafni og því lá beinast við að breyta nafni sveitarinnar í Papar enda voru hinir fyrrgreindu Papar þá hættir, höfðu hætt í ársbyrjun 2008. Málið var hins vegar ekki svo einfalt því Paparnir settu sig upp á móti því og tryggðu sér nafnið með því að tryggja sér einkaréttinn á því, þrátt fyrir að aðeins einn þeirra hefði verið í upphaflegu útgáfunni en þrír hinnar nýju sveitar. Því varð úr að Keltar / Papar tóku upp nafnið Hrafnar haustið 2008 og störfuðu síðan undir því nafni, reyndar mun hafa komið upp sú hugmynd að nefna sveitina Gigtarfélagið en Hrafnar urðu ofan á.

Auk þremenninganna sem fyrr eru nefndir voru Hlöðver Guðnason gítarleikari og Hilmar Sverrisson harmonikkuleikari í sveitinni en þeir höfðu allir ættir og uppruna að rekja til Vestmannaeyja nema Hilmar sem í grunninn var Skagfirðingur og hafði m.a. leikið með Hljómsveit Geirmundar Valtýrssonar. Spilamennska Eyjamannanna hafði hins vegar skarast víða á tónlistarferlinum í sveitum eins og Tilfinningu, 7und, Qmen 7, Sótaranum og auðvitað Pöpum. Engu að síður bjuggu þeir allir og störfuðu á höfuðborgarsvæðinu á þessum tíma og gerðu út þaðan.

Hrafnar þræddu að nokkru leyti þá leið sem Paparnir höfðu farið tveimur áratugum fyrr, þjóðlagatónlist – einkum írsk átti upp á pallborðið hjá þeim og reyndar gat sveitin ef svo bar undir leikið alls konar tónlist, allt frá rokki til diskós og frumsamið efni var þar einnig. Þegar sveitin kom fyrst fram undir Hrafna-nafninu haustið 2008 var það á Fjörukránni í Hafnarfirði fyrir þýskt kvikmyndatökulið en í kjölfarið lék sveitin á dansleikjum og árshátíðum, þorrablótum og viðlíka skemmtunum víða um höfuðborgarsvæðið s.s. á Fjörukránni og Kringlukránni en fljótlega einnig á stöðum eins og Spot í Kópavogi, þá lék sveitin á írskri menningarhátíð og svokölluðu Eyjakvöldi og reyndar áttu þeir félagar eftir að gera Eyjatónlistinni töluvert hátt undir höfðu í bland við aðallega þjóðlagatónlistina.

Hrafnar

Fljótlega á árinu 2009 sendu Hrafnar frá sér sín fyrstu lög, þar má fyrst nefna lagið Ragga, Fríða og Rósa sem hlaut nokkra spilun á Rás 2 og komst þar ofarlega á vinsældarlista, og í kjölfarið fylgdi lagið Stígðu ekki á strikið sem einnig varð nokkuð vinsælt. Þeir félagar hófu aukinheldur að starfa með Bjartmari Guðlaugssyni og hljóðrituðu með honum lag sem hlaut nafnið Velkomin á bísann en það lag átti síðar eftir að koma út með hljómsveitinni Bjartmari og Bergrisunum og njóta mikilla vinsælda.

Sveitin starfaði áfram, hafði heilmikið að gera og sumarið 2010 lék hún ásamt fleirum á Reykjavik Folk Festival á Rósenberg en einnig var nokkuð um að þeir félagar léku í einkasamkvæmum. Árið 2011 fór reyndar mun minna fyrir sveitinni, Vignir banjóleikari hafði slasast og meðan hann jafnaði sig lá sveitin í dvala en um sumarið 2012 birtist hún á nýjan leik og þá með plötu í farteskinu – hún hlaut nafnið Krunk og var gefin út af Geimsteini og hlaut ágæta dóma í DV. Á henni var að finna fyrrgreind lög með sveitinni en hún hafði að geyma tólf lög, flest erlend þjóðlög við texta úr ýmsum áttum. Þarna höfðu orðið lítils háttar mannabreytingar á Hröfnum, Hilmar hafði yfirgefið sveitina en lék reyndar eitthvað á henni eðli máli samkvæmt enda hafði hann verið meðlimur hennar hluta upptökuferlisins, en á plötunni söng Bjartmar líka Velkomin á bísann sem á þeim tímapunkti hafði komið út á tveimur mismunandi plötum því Bjartmar og Bergrisarnir höfðu gefið lagið út í millitíðinni (2010). Helgi Hermannsson bróðir Hermanns Inga kom einnig við sögu á Krunk.

Gaman er að geta þess að á plötunni er að finna lagið Karlinn er dauður en það lag fjallar um Helga Hermanns, þeir bræður Helgi og Hermann höfðu starfað með Logum um 30 árum fyrr og m.a. gefið út smáskífu með laginum Minning um mann, sem fjallar um Eyjamanninn Gölla Valdason. Á goslokahátíðinni 2008 ákváðu þeir félagar að heiðra minningu Gölla með því að reisa legstein í minningu hans í kirkjugarðinum í Eyjum en þegar þeir voru að koma steininum þar fyrir með viðhöfn hneig Helgi niður og í kjölfarið var hann fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahúsið í Eyjum – eðlilega var mönnum brugðið en reyndar mun þar aðeins hafa verið um vökvaskort að ræða, lagið fjallar um þetta og í því eru fjölmargar skírskotanir í lagið Minning um mann.

Hrafnar 2015

Í kjölfar útgáfu plötunnar létu Hrafnar að sér kveða á nýjan leik, léku m.a. á Sandgerðisdögum, í Vestmannaeyjum, á réttaballi á Heimalandi og víðar, en frá og með því fóru þeir félagar að leggja áherslu á tónleikaformið í stað dansleikjanna enda voru þetta allt menn komnir á miðjan aldur og ballspilamennska var ekki endilega í forgangi hjá þeim. Hrafnar héldu tvenna útgáfutónleika, annars vegar á Spot í Kópavogi en hins vegar í Gamla fjósinu á Steinum undir Austur-Eyjafjöllum, þar kom Hilmar reyndar fram með þeim einnig.

Eftir þetta fór nokkuð minna fyrir Hröfnum, þeir voru þarna fyrst og fremst orðin tónleikasveit en léku þó eitthvað líka á dansleikum, og t.d. var fastur liður hjá sveitinni að leika á þorrablótum hjá MS-félaginu. Árið 2014 var Helgi Hermannsson orðinn fastur meðlimur sveitarinnar og þ.a.l. var hún nú skipuð tveimur bræðrapörum, Helga og Hermanni Inga og Georg og Vigni, auk Hlöðvers. Sveitin lék nú mun minna en áður en kom þó m.a. fram á tónleikum í Eyjum og þá kom Bjartmar einnig fram með þeim.

Árið 2015 lék sveitin lítið, kom reyndar fram á sjónarsviðið síðsumars eftir nokkra pásu og léku þá á Menningarnótt og svo á tvennum tónleikum í Hannesarholti auk þess að halda tónleika í Alþýðuhúsinu í Vestmannaeyjum. Þeir voru þá farnir að vinna með gömul þjóðhátíðarlög, sem var líklega fyrst og fremst gæluverkefni Helga en sveitin mun hafa hljóðritað og safnað ýmsum gömlum Eyjalögum í því skyni að bjarga þeim frá glötun, þar mun bæði hafa verið um að ræða eiginleg þjóðhátíðarlög og einnig lög sem send höfðu verið í þjóðhátíðalagakeppnirnar sem haldnar voru á sínum tíma, án þess að hafa unnið. Sveitin var þó einnig líka að vinna í öðru efni og á næstu árum sendu þeir félagar frá sér nokkur lög.

Hrafnar komu lítið fram á tónleikum næstu misserin, léku þó á Rósenberg að minnsta kosti tvívegis haustið 2016 og svo í Eyjum í ársbyrjun 2017 og svo í Hafnarborg í Hafnarfirði í kjölfarið sem og í kvöldmessu í Selfosskirkju. Þá um sumarið átti sveitin síðan goslokalagið svokallaða sem það var í fyrsta sinn sem slíkt lag var opinberað. Lagið bar titilinn Heim til Eyja og var gefið út á tveggja laga smáskífu í takmörkuðu upplagi en hitt lagið á plötunni var eins konar þjóðhátíðarlag með sveitinni og hét Þjóðhátíðarstúlkan mín. Eins og fyrr greinir var sveitin nú á þessum tímapunkti fyrst og fremst tónleikasveit og reyndar blönduðu þeir félagar þá saman tónlist og töluðu máli svo úr varð tónlistar- og sögutengd skemmtidagskrá. Slíka tónleika hélt sveitin áfram með næstu árin, s.s. í Hannesarholti og í Eldheimum í Vestmannaeyjum, og komu auk þess fram á stórum Eyjatónleikum í Hörpu ásamt fleiri skemmtikröftum árið 2018.

Sveitin hélt áfram að vinna með efni sem var hljóðritað í skömmtun, eðlilega fór lítið fyrir hljómsveitinni í Covid-faraldrinum þótt hún sendi í nokkur skipti frá sér smáskífur á netinu, en vorið 2023 kom svo út loks níu laga breiðskífa á tónlistarveitunum undir nafninu Nornahár – það var afrakstur úr hljóðversvinnu sveitarinnar (aðallega úr Sýrlandi) áranna á undan en einnig hafa komið út smáskífur með sveitinni síðan, m.a. skífan Viddi vélhjólakappi.

Hrafnar hafa legið í dvala síðustu misserin vegna veikinda Hermanns Inga og þegar þetta er ritað liggur ekki fyrir hvort sveitin sé enn starfandi, það hlýtur þó að teljast fremur ólíklegt.

Efni á plötum