Hreinn Valdimarsson (1952-)

Hreinn Valdimarsson

Hreinn Valdimarsson starfaði í áratugi sem tæknimaður hjá Ríkisútvarpinu og var landsþekktur sem slíkur en hann er einnig þekktur fyrir starf sitt innan stofnunarinnar við varðveislu upptaka og yfirfærslu þeirra á varanlegt form, auk þess hefur hann komið að tónlist með ýmsum öðrum hætti.

Hreinn Valdimarsson er fæddur 1952, hann ólst að mestu upp í Kópavogi og lærði á gítar og flautu sem barn og unglingur en hann starfaði með hljómsveitum á sínum yngri árum, lék í þeim líklega mestmegnis á gítar en einnig á trommur. Þá starfrækti hann einnig síðar danshljómsveit í eigin nafni innan Ríkisútvarpsins um skeið og hefur leikið inn á fáeinar plötur – sem bassaleikari á plötu Bræðrabandsins og sem munnhörpuleikari á plötum Possibillies og Íslenska handboltalandsliðsins. Hreinn hefur jafnframt sungið með kórum, s.s. Skagfirðingakórnum og Fóstbræðrum þannig að hann hefur komið að tónlist með beinum hætti.

Hreinn er samt sem áður þekktastur fyrir framlag sitt til hljóðvinnslu og ekki síður varðveislu hljóðminja. Hann nam útvarps- og sjónvarpsvirkjun (síðar nefnt rafeindavirkjun) og lauk því námi vorið 1974 en starfaði samhliða náminu hjá fyrirtækinu Rafeindatækni. Strax að loknu námi var hann ráðinn sem tæknimaður hjá Ríkisútvarpinu og þar átti hann eftir að starfa um áratuga skeið, fyrst og fremst sem tæknimaður en síðar einnig við dagskrárgerð og aðra hljóðvinnslu s.s. upptökur og upptökustjórn.

Á seinni árum sínum hjá Ríkisútvarpinu hóf Hreinn að vinna við hreinsun og yfirfærslu á gömlum upptökum af ýmsu tagi af segulböndum og lakkplötum yfir á stafrænt form auk skráningar á því efni en um er að ræða tugþúsundir skráa sem liggur undir skemmdum og er jafnvel óskráð – hér er því að einhverju leyti um kapphlaup við tímann að ræða en þeirri vinnu er hvergi nærri lokið og fjármagn takmarkað til að gera það hraðar. Samhliða þessum störfum hefur Hreinn fengist við að halda fyrirlestra og námskeið tengt efninu og einnig sögu íslenskrar tónlistar en hann er mikill áhugamaður um tónlistarsögu.

Hreinn starfaði hjá Ríkisútvarpinu til áramót 2022-23 en lét þá af störfum vegna aldurs, hann var þá orðinn sjötugur.