
Hrókar 1966
Hljómsveitin Hrókar frá Keflavík starfaði um nokkurra ára skeið á sjöunda áratugnum – frá 1966 og líklega til 1969 en sveitin mun síðan hafa starfað lítt breytt undir nokkrum nöfnum til ársins 1973, sveitin var svo endurreist árið 2009 og hefur starfað nokkuð óslitið síðan þá.
Hrókar voru stofnaðir í Gagnfræðaskóla Keflavíkur árið 1966, líklega um haustið og mun hljómsveitin hafa komið fyrst fram opinberlega á pásu á balli í æskulýðsheimilinu í Keflavík síðla árs þar sem hljómsveitin Echo var aðal hljómsveitin. Meðlimir Hróka voru þá Friðrik Ívarsson bassaleikari, Hrólfur Gunnarsson trommuleikari, Oddur Garðarsson gítarleikari og Ólafur Sigurðsson gítarleikari en þeir voru allir jafnaldrar – fæddir 1952.
Til að byrja með spiluðu þeir félagar mestmegnis á skólaböllum en síðan færðu þeir sig yfir í Ungó og sveitaböllin og að lokum hófu þeir að leika á Vellinum hjá Kananum. Reyndar voru þeir þá einungis fimmtán ára gamlir og eðlilega settu einhverjir foreldrar þeirra þeim stólinn fyrir dyrnar, og í kjölfarið kom barnaverndarnefnd að málinu. Einhverjar mannabreytingar urðu þá á sveitinni en málin leystust af sjálfu sér þegar meðlimir sveitarinnar náðu sextán ára aldri, og gátu þeir þá spilað þar sem þeim hentaði.
Hrókar spiluðu undir þessu nafni næstu árin en ekki er þó alveg ljóst hversu lengi, þeir félagar léku víða um land og hér má m.a. nefna að hún lék um verslunarmannahelgina í Galtalækjarskógi 1967 en mest starfaði hún þó á heimavelli – aðallega á Vellinum. Árið 1969 hafði nafni sveitarinnar verið breytt í Bóluhjálma og voru meðlimir þeirra sveitar þeir Oddur gítarleikari, Hrólfur trommuleikari, Sigurður Björgvinsson bassaleikari, Magnús Daðason söngvari og Ingvi Steinn Sigtryggsson orgelleikari en þá hafði Finnbogi Kjartansson bassaleikari líklega einnig starfað með sveitinni undir Hróka-nafninu, hins vegar er óljóst hverjir Bóluhjálma-meðlima voru í sveitinni meðan hún hét Hrókar. Bóluhjálmar áttu síðar eftir að starfa undir nafninu Júbó og enn var sami Hróka-kjarninn í sveitinni. Einnig hafa nöfn þeirra Ingvars Bjarnasonar, Péturs Kristjánssonar og Jóns Rósmanns Ólafssonar verið nefnd í þessu samhengi – gott væri að fá upplýsingar um hverjir þeirra störfuðu með sveitinni í nafni Hróka.

Hrókar úr Keflavík 2010
Vorið 2009 þegar Hrókar höfðu legið í dvala í um fjörutíu ár, var sveitin endurreist til að koma fram á endurfundasamkomu ´52 árgangsins í Keflavík, þar kom hún fram undir nafninu Hinir óviðjafnanlegu Hrókar frá Keflavík. Það sama ár kom sveitin fram á Ljósanætur hátíðinni í Keflavík og var sveitin þá skipuð þeim Hrólfi trommara, Friðrik bassaleikara, Ólafi gítarleikara, Oddi gítarleikara, Finnboga bassaleikara og Magnúsi söngvara.
Þetta varð til þess að sveitin hóf störf á nýjan leik og hefur starfað líklega nokkuð óslitið síðan þá og komið fram við margvíslega tækifæri, aðallega þó á Ljósanótt. Þá hefur sveitin á síðustu árum sent frá sér nokkur lög, og fastur liður í starfi sveitarinnar hefur verið að gera jólalög. Frá árinu 2015 var sveitin skipuð þeim Friðriki, Magnúsi, Oddi og Ólafi en Jón Rósmann hafði þá einnig bæst í hópinn, Rúnar Friðriksson trommuleikari (sonur Friðriks) hefur starfað með sveitinni síðan 2018 og árið 2023 bættist harmonikkuleikarinn Einar Gunnarsson í sveitina, þá hefur söngkona að nafni Birta [Rós Arnórsdóttir?] starfað með Hrókum síðustu árin en hljómsveitin er enn starfandi og í fullu fjöri þótt menn séu e.t.v. komnir af allra léttasta skeiðinu.














































