Afmælisbörn 6. apríl 2025

Berglind Bjarnadóttir

Sex tónlistartengd afmælisbörn koma í dag við sögu Glatkistunnar:

Ásgeir Tómasson tónlistarspekúlant, blaðamaður, dagskrárgerðarmaður og margt annað, er sjötíu og eins árs gamall í dag. Hann hefur mest alla tíð starfað við tónlist og fréttaflutning, hann hefur skrifað um tónlist á flestum dagblöðum landsins auk þess að hafa annast þáttagerð í útvarpi.

Georg Hólm bassaleikari hljómsveitarinnar Sigur rósar er fjörutíu og níu gamall á þessum degi, áður en hann gerði garðinn frægan með þeirri sveit hafði hann leikið með sveitum eins og Föss, Korn og Vínyl svo dæmi séu hér nefnd.

Trommuleikarinn Arnar Rósenkranz Hilmarsson fagnar þrjátíu og átta ára afmæli í dag. Arnar sem kemur upphaflega úr Garðabænum, hefur starfað með hljómsveitum eins og Hydrus og Cliff Clavin en þekktust sveita hans er án efa Of monsters and men sem hefur gert það gott síðustu árin víða um heiminn.

Guðmundur Benediktsson tónlistarmaður er sjötíu og fjögurra ára gamall í dag. Guðmundur er kunnur söngvari og hljómborðsleikari en leikur á fleiri hljóðfæri og hefur starfað með mörgum þekktum sveitum eins og Mánum, Brimkló, Haukum, Islandicu og Hálfu í hvoru en einnig minna þekktari sveitum eins og Bimbó tríó, Blóðbergi, Kaktus, X-port, Mexíkó og Action. Hann hefur auk þess leikið inn á mikinn fjölda útgefinna platna.

Árni Kristjánsson sem þekktastur er sem gítarleikari hljómsveitarinnar Vonbrigða á stórafmæli en hann er sextugur á þessum degi. Árni hefur leikið með fjölda annarra sveita og hér má nefna Barbie, FiveBellies, Dularfullu stjörnuna, Hrúgaldin, Silfurtóna, Teina og Rut+ svo aðeins nokkrar séu nefndar.

Ennfremur hefði Berglind Bjarnadóttir (fædd 1957) söngkona þjóðlagasveitarinnar Lítið eitt átt þennan afmælisdag, auk þess að syngja inn á nokkrar plötur (m.a. með Lítið eitt) hafði hún söngkennaramenntun á bakinu og sá um tíma um óskalagaþátt fyrir börn í Ríkisútvarpinu. Hún lést árið 1986 eftir veikindi.

Vissir þú að karlakórinn Jökull á Höfn í Hornafirði var stofnaður á bændafundi árið 1972?