
Tryggvi Hansen
Þrjú afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar á þessum degi.
Tryggvi G. Hansen torfhleðslu-, tónlistar- og fjöllistamaður er sextíu og níu ára gamall í dag en hann hefur verið þekktastur síðustu árin fyrir að búa í tjaldi í jaðri höfuðborgarsvæðisins. Tryggvi á þó einnig tónlistarferil að baki en þrjár plötur komu út tengdar honum á tíunda áratug 20. aldarinnar, tvær sólósnældur og ein plata með Seiðbandinu sem bar hinn frábæra titil Vúbbið era koma. Tryggvi hefur aukinheldur birst á fáeinum plötum annarra listamanna.
Einnig hefði Bjarni (Ragnar) Lárentsínusson söngvari og lúðrasveitamaður átt afmæli á þessum degi en hann lést árið 2020. Bjarni, sem var fæddur árið 1931 söng og lék með hljómsveitum á sínum yngri árum, söng með kórum og kom stundum fram sem einsöngvari en hann sendi frá sér söngdúettaplötu ásamt Njáli Þorgeirssyni árið 1985, þá starfaði hann með Lúðrasveit í yfir sextíu ár.
Og að síðustu er hér nefndur lúðrasveitafrumkvöðullinn Hallgrímur Þorsteinsson. Hann var Árnesingur, fæddur 1864 og kom að stofnun og stjórnun lúðrasveita um land allt, hér má nefna lúðrasveitir innan KFUM, meðal góðtemplara og í Borgarnesi, Stykkishólmi, Sauðárkróki og Vestmannaeyjum, hann stjórnaði einnig fjölmörgum kórum, og starfaði sem organisti og söngkennari. Hallgrímur lést 1952.
Vissir að þegar Dúkkulísurnar unnu Músíktilraunir árið 1983 fór keppnin fram á Kjarvalsstöðum?


