Hljómsveitin Hubris frá Hveragerði hefur starfað með hléum frá 2007 en hún er náskyld annarri sveit af svipuðum toga sem hefur skapað sér heilmikið nafn, hljómsveitinni Auðn.
Hubris var stofnuð í Hveragerði árið 2007 en hljómsveitin er rokksveit í harðari kantinum og fellur undir það sem kallast svartmálmur. Sveitin starfaði í fjölda ára áður en hún kom fyrst fram opinberlega en það var vorið 2016 á Reykjavík deathfest hátíðinni þegar hún spilaði ásamt fleiri sveitum. Meðlimir sveitarinnar voru þá þeir Aðalsteinn Magnússon gítarleikari, Sigurður Kjartan Pálsson trommuleikari og Hjalti Sveinsson söngvari [?] en þeir eru einnig meðlimir hljómsveitarinnar Auðnar, ekki liggja fyrir upplýsingar um aðra meðlimi Hubris en hugsanlega er Matthías Hlífar Mogensen bassaleikari hennar.
Hubris lék sem fyrr segir á Reykjavík deathfest vorið 2016, og einnig á sömu hátíð 2017 en sveitin kom í nokkur skipti fram á tónleikum um það leyti. Hljómsveitin var líklega hætt störfum ári síðar en var svo endurreist árið 2019 og kom þá fram á Gauki á Stöng og hefur eftir það komið reglulega saman og leikið á tónleikum. Líkast til hefur Auðn valdið því að lítið heyrist til sveitarinnar en sú sveit kemur reglulega fram.














































