Húrra var tímarit fyrir táninga og fjallaði einkum um tónlist, en blaðið kom út um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar, á árunum 1965 og 66.
Það var söngvarinn Haukur Morthens sem setti Húrra á laggirnar og var ritstjóri blaðsins en einnig skrifaði Þorsteinn Eggertsson í það. Í ritinu mátti m.a. finna greinar um erlenda tónlistarmenn á borð við Tom Jones og Brian Poole, auk þess sem fjallað var um djasstónlist, birtir voru dægurlagatextar og myndir af íslensku og erlendu tónlistarfólki – í 2. tölublaði Húrra var t.a.m. opnumynd af hljómsveitinni Tónum.
Ekki liggur fyrir hversu mörg tölublöð komu út af Húrra, í árbók Landsbókasafnsins er talað um fjögur tölublöð en aðrar heimildir segja einungis tvö tölublöð hafa komið út.














































