Húsband Populus Tremula (2002-)

Húsband Populus Tremula árið 2007 ásamt Sigurði Heiðari Jónssyni

Hljómsveit sem gengið hefur undir nafninu Húsband Populus Tremula, hefur starfað á Akureyri um langt skeið án þess þó að um samfleytt samstarf hafi verið að ræða – og reyndar hafði hún verið til í yfir áratug þegar hún fyrst hlaut nafn sitt.

Upphaf sveitarinnar má rekja allt til ársins 2002 þegar nokkrir tónlistarmenn á Akureyri sem viðloðandi voru lista- og menningarlífið í miðbænum settu saman tónlistardagskrá með tónlist sænsk-hollenska vísnaskáldsins Cornelis Vreeswijk. Tveimur árum síðar, sumarið 2004 var leikurinn endurtekinn en nú var Tom Waits heiðraður með tónlistardagskrá – síðar það sama ár eða um haustið 2004 var listasmiðjan Populus Tremula (latneska heitið yfir blæösp) stofnuð í Listagilinu að einhverju leyti utan um þennan sama hóp, m.a. að undirlagi Sigurðar Heiðars Jónssonar sem hafði safnað saman tónlistarmönnunum til að leika tónlist Cornelis Vreeswijk.

Listasmiðjan Populus Tremula starfaði í tíu ár, þar var unnið mikið hugsjónastarf en ótal myndlistarsýningar voru haldnar í smiðjunni og hópurinn stóð aukinheldur að ýmsum tónlistartengdum uppákomum næstu árin þar sem sveitin lék tónlist Nick Cave, Leonard Cohen og Megasar, og e.t.v. fleiri söngvaskálda. Ókeypis aðgangur var að öllum viðburðum á vegum Populus Tremula.

Fyrrnefndur Sigurður Heiðar (stundum kallaður Papa Populus), sem var einn af forsprökkum og hvatamönnum að stofnun hópsins lést sumarið 2011 og haustið 2014 ákváðu aðrir smiðju-liðar að heiðra minningu hans með tónleikum helguðum tónlist þeirra Vreeswijk, Waits og Cave, og það var fyrst þá sem sveitin hlaut eiginlegt nafn – Húsband Populus Tremula.

Húsband Populus Tremula 2014

Meðlimir þeirrar útgáfu sveitarinnar voru þeir Kristján Pétur Sigurðsson söngvari, Arna Valsdóttir söngkona, Arnar Tryggvason hljómborðs- og harmonikkuleikari, Bárður Sigurðsson banjó- og gítarleikari, Guðmundur Egill Erlendsson gítarleikari, Hjálmar Stefán Brynjólfsson bassaleikari og Orri Einarsson trommuleikari en einnig hafði sveitin sér til fulltingis söngvarana Sigríði Thorlacius og Valdimar Guðmundsson. Áðurnefndir meðlimir sveitarinnar voru mistengdir listasmiðjunni og sumir þeirra höfðu ekki tekið þátt í starfseminni nema í kringum tónlistina. Um leið og tónleikarnir voru minningartónleikar um Sigurð Heiðar voru þeir einnig tíu ára afmælistónleikar Populus Tremula og um sama leyti var það gefið út að smiðjunni yrði lokað í árslok 2014, sem varð svo raunin og lék sveitin þá aftur á eins konar kveðjusamkomu.

Svo virtist sem sögu sveitarinnar lyki þar með en haustið 2021 kom hópurinn saman á nýjan leik eftir um sjö ára hlé, og lék á tónleikum í Deiglunni í Listagilinu á Akureyri og síðan þá hefur sveitin komið í nokkur skipti saman á haustin og haldið tónleika. Húsbandið hefur yfirleitt að mestu verið skipað sama mannskapnum og áður, þeim Arnari, Guðmundi Agli, Hjálmari og Kristjáni auk þess sem Arna, Viktor Daði Pálmarsson og Aðalsteinn Svanur Sigfússon hafa sungið með sveitinni, sá síðast taldi hefur líklega einnig leikið eitthvað með sveitinni á gítar. Húsband Populus Tremula er því enn starfandi.