Hvítir mávar (1998-2013)

Hvítir mávar

Hljómsveit sem bar nafnið Hvítir mávar var starfrækt um margra ára skeið, og er e.t.v. enn starfandi í einhvers konar mynd en hún samanstóð af kjarnanum sem myndaði Hljómsveit Ingimars Eydal á sínum tíma og ber nafn helsta stórsmells Helenu Eyjólfsdóttur söngkonu þeirrar sveitar – Hvítu mávar, lagið kom reyndar aldrei út með hljómsveit Ingimars en var um langt árabil á prógrammi sveitarinnar.

Hvítir mávar voru því eins konar heiðurhljómsveit í minningu Ingimars og innihélt meðlimi sem höfðu flestir starfað með honum, hér má nefna Árna Ketil Friðriksson trommuleikara, Brynleif Hallsson gítarleikara og söngvara, Grím Sigurðsson söngvara og trompetleikara, Gunnar Ringsted gítarleikara, Kristján Guðmundsson píanóleikara, Sævar Benediktsson bassaleikara, Þorstein Kjartansson saxófónleikara og auðvitað Helenu sjálfa, einnig mun Þorvaldur Halldórsson og eflaust miklu hafa fleiri troðið upp með sveitinni.

Hvítir mávar störfuðu á árunum 1998 til 2013 hið minnsta en sveitin var þó aldrei starfandi sem slík heldur kom hún saman með reglulegu millibili enda voru meðlimir hennar búsettir víða um land – Helena sagði t.a.m. í viðtali að sveitin æfði aldrei heldur kæmi hún bara saman og lögin væru þarna. Sveitin átti sína föstu punkta í spilamennskunni og lék t.a.m. á árlegu Zonta balli á Akureyri í mörg ár, einnig kom hún fram á tónleikum í tilefni af 40 ára afmæli Tónabúðarinnar (2006) og 50 ára söngafmæli Helenu (2013) svo fáein dæmi séu nefnd.

Ekki er þó ljóst hversu lengi sveitin starfaði og gæti hér skeikað einhverjum árum hvað það varðar.