Húnakórinn (1993-2018)

Húnakórinn 1999

Húnakórinn var kór sem starfaði á höfuðborgarsvæðinu og var skipaður fólki sem ýmist voru brottfluttir Húnvetningar eða átti rætur að rekja til Húnavatnssýslna. Kórinn starfaði í um aldarfjórðung en ekki er ljóst hvort hann starfaði innan Húnvetningafélagsins í Reykjavík eða var óháður því félagi.

Húnakórinn var settur á laggirnar síðsumars 1993 en var síðan formlega stofnaður í desember sama ár, kórinn gekk yfirleitt undir nafninu Húnakórinn en var einnig stundum kallaður Söngfélagið Húnar, Húnvetningakórinn eða Söngfélag Húnvetninga – áður höfðu starfað kórar af svipuðum toga undir nöfnunum Söngfélagið Húnar (1942-58) og Húnvetningakórinn í Reykjavík (1966-75).

Stofnmeðlimir Húnakórsins voru um þrjátíu talsins og var Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir fyrsti stjórnandi kórsins, stjórnaði honum fyrsta veturinn en þá tók Sesselja Guðmundsdóttir við kórstjórninni. Hún stjórnaði Húnakórnum um fjögurra ára skeið en þá leysti Kjartan Ólafsson hana af hólmi og stjórnaði honum til 2002 – reyndar hafði þá Elín Ósk Óskarsdóttir eiginkona Kjartan verið einnig stjórnandi kórsins um skeið og stýrði honum t.a.m. á plötu sem kom út árið 2002, sú plata bar heitið Dropinn holar steininn og hafði að geyma upptökur frá tónleikum kórsins í Seltjarnarneskirkju í mars 2002. Eiríkur Grímsson var næsti stjórnandi Húnakórsins, og var með hann til 2007 þegar Jón Bjarnason tók við en hann var með kórinn til ársins 2012 þegar Þórhallur Helgi Barðason kom til sögunnar, Eiríkur var svo aftur með kórinn veturinn 2017-18 en þá um vorið fór Húnakórinn í pásu sem hann hefur ekki enn komið úr en þá hafði kórastarfið verið stopult um tíma – líklega hafði Covid heimsfaraldurinn eitthvað um það að segja að kórinn var ekki endurvakinn.

Húnakórinn 2012

Húnakórinn söng töluvert opinberlega meðan hann starfaði, ýmsir fastir liðir voru í dagskrá hans og t.d. var kórinn með árlega aðventu- og vortónleika en einnig söng kórinn töluvert með öðrum kórum á almennum tónleikum s.s. með Söngfélagi Skaftfellinga, Kór Átthagafélags Strandamanna, Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps og fleirum, þá söng kórinn á fjölmörgum kóramótum og söng stöku sinnum einnig við guðþjónustur t.a.m. í Kópavogskirkju, Seljakirkju og víðar. Húnakórinn fór í nokkur skipti erlendis í söngferðir og hér má nefna lönd eins og Austurríki, Ungverjaland, Litháen, Eistland og Pólland. Kórinn hélt sína fyrstu (og hugsanlega einu) sjálfstæðu tónleika vorið 2000 þegar hann söng í Árbæjarkirkju.

Efni á plötum