Hyskið [1] (1986-90 / 2008-)

Hyskið

Hljómsveitin Hyskið er e.t.v. ekki með þekktustu hljómsveitum landsins en hún átti tryggan hóp aðdáenda á sínum tíma, og sendi m.a.s. frá sér kassettu.

Hyskið var stofnuð í Kópavogi árið 1986 og var nokkurs konar afsprengi pönkbylgjunnar sem þó var þá liðin undir lok. Tónlist sveitarinnar var skilgreind sem pönkrokkþjóðlagalegs eðlis og segir sagan að heilmiklar mannabreytingar hafi átt sér stað í henni meðan hún starfaði, t.a.m. hefðu að minnsta kosti fjórir trommuleikarar hafa starfað með sveitinni.

Hyskið virðist ekki hafa leikið mikið opinberlega á tónleikum en árið 1987 lék hljómsveitin í fáein skipti á Hótel Borg ásamt fleiri sveitum en einnig finnst heimild um að hún hafi leikið á tónleikum í Menntaskólanum í Kópavogi. Árið 1989 sendi sveitin svo frá sér átta laga kassettu sem hlaut titilinn Best off en hún hafði að mestu að geyma frumsamið efni, á henni voru meðlimir sveitarinnar Benjamín Gíslason söngvari, Hallgrímur Guðsteinsson gítarleikari, Bragi Ragnarsson trommuleikari, Ármann Jónasson bassaleikari og Benedikt Sigurðsson gítarleikari – einnig söng Ásgerður Júníusdóttir eitt lagið á kassettunni.

Hyskið

Hyskið mun hafa hætt störfum sumarið 1990 þegar þáverandi trymbill sveitarinnar Arnar Geir Ómarsson gekk til liðs við hljómsveitina Ham en ekki liggur fyrir hverjir aðrir skipuðu sveitina þá, svo virðist sem einhverjir meðlimir sem síðar skipuðu hljómsveitina Kol hafi verið í henni – því er óskað er eftir frekari upplýsingum um meðlima- og hljóðfæraskipan sveitarinnar.

Ekkert spurðist til Hyskisins um nokkurra ára skeið, tilraun var gerð til að endurreisa sveitina árið 1999 og þá voru menn með plön um að hljóðrita nýtt efni, ekkert virðist þó hafa orðið úr þeim áformum. Hins vegar var Hyskið vakin af værum svefni haustið 2008 og hefur síðan þá starfað í einhverri mynd en líkast til langt frá því samfleytt, sveitin hefur eitthvað leikið opinberlega og er að öllum líkindum skipuð sama mannskap og hún var á kassettunni sem kom út 1989.

Efni á plötum