Hölt hóra (2003-06)

Hölt hóra

Pönkrokksveitin Hölt hóra vakti töluverða athygli í upphafi þessarar aldar og þrátt fyrir fremur ósmekklegt nafn að mati sumra hjálpaði það sveitinni líklega að fanga athygli fólk og koma sveitinni á framfæri – töldu meðlimir sveitarinnar síðar í viðtali.

Hljómsveitin var stofnuð í upphafi árs 2003 (hugsanlega jafnvel haustið á undan) í uppsveitum Árnessýslu og hafi nafn sveitarinnar þótt ósmekklegt þá var það hálfu verra í upphafi því hún bar upphaflega nafnið Hölt hóra með kúk á brjóstunum, það var þó aldrei notað opinberlega.

Meðlimir sveitarinnar voru líklega allir meðlimir Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi en örlítið vantar upp á upplýsingar um skipan hennar í upphafi, upphaflega voru þeir Atli Fannar Bjarkason söngvari, Magnús Guðmundsson gítarleikari, Valgeir Þorsteinsson trommuleikari og Eyþór Loftsson gítarleikari meðlimir sveitarinnar en upplýsingar vantar um upprunalega bassaleikara hennar – Sigurbjörn Már Valdimarsson átti eftir að taka við af honum, Eyþór gítarleikari gæti upphaflega hafa leikið á bassa en þá hefur líklega verið annar gítarleikari sem hann tók við af þegar Sigurbjörn kom inn.

Hölt hóra var reyndar stofnuð til að leika með annarri hljómsveit á einu sveitaballi en starfaði áfram eftir það og hljóðritaði fljótlega lag (Vændiskonan) sem birtist opinberlega á vefsíðunni Rokk.is þar sem það vakti athygli dagskrárgerðarmanna útvarpsstöðvarinnar X-sins og fór svo í spilun þar eftir að önnur og betri upptaka var gerð af laginu en þar naut sveitin fulltingis Magnúsar Öder sem síðar átti eftir að vinna með þeim félögum enn frekar við upptökur. Um sumarið var lagið brennt á geisladisk og selt í 12 tónum á vægu verði – 1 kr.

Hölt hóra hóf strax snemma um vorið 2003 að leika á höfuðborgarsvæðinu, t.d. í Hinu húsinu og Grand rokk ásamt fleiri hljómsveitum og varð hún fljótlega þekkt fyrir líflega sviðsframkomu – og þegar lag sveitarinnar gekk vel í hlustendur X-sins sendi hún frá sér annað lag (Muddy rock og ról) og spilaði nokkuð þétt um haustið á höfuðborgarsvæðinu, m.a. á X-mas jólatónleikum X-sins.

Hölt hóra

Hölt hóra hélt áfram þéttri spilamennsku árið 2004, hún kom fram í sjónvarpsþættinum At, lék mikið á Gauki á Stöng og Grand rokk en einnig t.a.m. á sveitaballi í Hvíta húsinu á Selfossi ásamt Á móti sól, og skilgreindi sig þ.a.l. ekki endilega sem tónleikasveit eingöngu enda hefur línan á milli ball- og tónleikasveita stundum verið þunn á Selfoss-svæðinu þaðan sem sveitin kom. Þá lék sveitin einnig bæði á rokktónleikum í Ölfushöllinni og á Iceland Airwaves um haustið.

Þeir félagar höfðu hljóðritað efni um sumarið 2004 sem áætlað var að kæmi út á fjögurra laga smáskífu á haustdögum en þeim áætlunum var frestað, m.a. vegna tæknilegra örðugleika en einnig vegna bassaleikaraskipta en Sigurbjörn kom um það leyti inn í sveitina. Smáskífan kom svo út árið 2005 og var þá sex laga en lögin tvö sem sveitin hafði áður sent frá sér í spilun þóttu ekki passa á skífuna, skífan sem bar nafnið Love me like you elskar mig hlaut prýðilega dóma poppskríbenta Blaðsins og Morgunblaðsins og þau fimm hundruð eintök sem gerð voru af henni seldust upp á nokkrum vikum – reyndar viðurkenndu þeir félagar í viðtali í þættinum Árið er 2005 á Rás 2 að þeir hefðu reglulega mætt í plötubúðirnar og stillt plötunni upp á „best seller“ stöðum – þar sem hún átti ekkert að vera.

Hölt hóra lék áfram töluvert til að fylgja plötunni eftir og á ólíkum vettvangi s.s. á Grand rokk, Einni með öllu á Akureyri um verslunarmannahelgina og svo á Airwaves um haustið. Framan af ári 2006 fór lítið fyrir sveitinni en um vorið hóf hún að leika á nýjan leik, hér má nefna Grand rokk, Hellinn á Granda, útitónleika á Ingólfstorgi og svo á Airwaves um haustið en eftir það heyrðist ekki meira frá sveitinni og hefur hún að líkindum hætt störfum fljótlega eftir Airwaves hátíðin.

Þrír meðlimir Haltrar hóru (Valgeir, Magnús og Eyþór) birtust nokkru síðar í hljómsveitinni Ingó og Veðurguðunum og léku þar tónlist allt annars eðlis, sem styður það sem nefnt var hér framan um þunna línu milli strauma og stefna á Selfossi og Suðurlandsundirlendinu.

Efni á plötum