
Hörður Fríðu (Hörður Guðmundsson)
Sauðkrækingurinn Hörður Guðmundsson var kunnur fyrir hljóðfæraleik sinn en hann starfrækti hljómsveitir á sínum yngri árum, hann var einnig þekktur hagyrðingur.
Hörður Guðmundsson (oft kenndur við móður sína og var kallaður Hörður Fríðu) starfaði lengst af ævi sinnar við sjómennsku og verslunarstörf á Sauðárkróki. Hann fæddist vorið 1928 og mun hafa lært tónlist um tveggja ára skeið hjá Eyþóri Stefánssyni tónskáldi en ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um á hvaða hljóðfæri það var, hins vegar lék hann á hin ýmsu hljóðfæri og þar má nefna píanó, harmonikku, gítar og klarinett.
Hann var líklega um tvítugt þegar hann stofnaði sína fyrstu hljómsveit en þó hlýtur að teljast líklegt að hann hafi leikið einn síns liðs á dansleikjum fyrir þann tíma enda voru harmonikkuleikarar eftirsóttir til spilamennsku þá. Fyrsta sveit hans var kölluð Hljómsveit Harðar Fríðu en mun einnig hafa gengið undir nafninu Hljómsveit Harðar Guðmundssonar eins og flestar sveitir sem hann starfrækti, Tríó Harðar Guðmundssonar, H.G. kvartett og H.G. kvintett voru hljómsveitanöfn sem notuð voru eftir því sem tilefnið hæfði. Sveitir Harðar störfuðu eitthvað fram á sjöunda áratuginn og misjafnt var á hvaða hljóðfæri hljómsveitarstjórinn sjálfur lék á, framan af var harmonikkan líklega mest notuð en síðar var það klarinettan þegar sveitirnar voru stærri – H.G. kvartettinn ku t.a.m. vera ein fyrsta „fullmannaða“ landsbyggðarsveitin. Hljómsveitir Harðar léku oft stór hlutverk í Sæluviku Skagfirðinga.
Ekki liggja fyrir upplýsingar um tónlistar- og hljómsveitaferil Harðar á síðari hluta sjöunda áratugarins og á áttunda áratugnum en 1980 lék hann á harmonikku með sveit sem bar nafnið Hljómsveit hússins, svo virðist sem sú sveit hafi jafnvel aðeins einu sinni komið fram opinberlega. Eftir það finnast engar upplýsingar um hljóðfæraleik hans.
Hörður lést síðsumars 1987, á sextugasta aldursári sínu.














































