Hörður G. Ólafsson (1953-)

Hörður G. Ólafsson

Sauðkrækingurinn Hörður G. Ólafsson er líkast til þekktastur fyrir tónsmíði sína Eitt lag enn sem sló rækilega í gegn árið 1990 sem framlag Íslands í Eurovision og hafnaði að lokum í fjórða sæti lokakeppninnar. Hörður hefur þó samið fjölmörg önnur lög og þar af eru nokkur þekkt, auk þess hefur hann sent frá sér sólóplötu og leikið með fjöldanum öllum af hljómsveitum í gegnum tíðina.

Hörður Gunnar Ólafsson er borinn og barnfæddur á Sauðárkróki, árið 1953 og hóf um tíu ára aldur að læra á gítar. Reyndar varð tónlistarnámið ekki langt en þeim mun lengri varð hljómsveitaferillinn, en hann hófst þegar Hörður var tólf ára gamall. Hann lék á gítar með unglingahljómsveitum á borð við Neista sem starfaði í tvö ár aðallega á skólaböllum og -skemmtunum en frá og með fjórtán ára aldri var hann farinn að leika á almennum dansleikjum og þurfti þá uppáskrifað leyfi frá sýslumanni. Þetta voru hljómsveitirnar Afturgangan og Stöff en síðan var komið að Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar sem stofnuð var snemma árs 1971 en þar var Hörður frá upphafi og hafði þá snúið sér að bassanum sem síðan varð hans aðal hljóðfæri um árabil.

Hörður lék með hljómsveit Geirmundar á sveitaböllum víða um land en aðallega á heimaslóðum í Skagafirðinum, og lék þá einnig inn á smáskífu og breiðskífu sem sveitin sendi frá sér snemma á níunda áratugnum. Þegar hann var orðinn þreyttur á þeirri spilamennsku stofnaði hann sína eigin sveit árið 1989 sem hlaut nafnið Styrming en hún var annars vegar skipuð liðsmönnum úr hljómsveit Geirmundar og hins vegar Herramönnum sem var nokkuð þekkt sveit á þeim tíma.

Stjarna Harðar hóf að skína ári síðar, 1990 en hann hafði þá sent inn lög í undankeppni Eurovision keppninnar og tvö þeirra, Mánaskin og Eitt lag enn (við texta Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar) komust í úrslitin – fyrrnefnda lagið datt út en Eitt lag enn náði inn í sex laga úrslitakvöld og sigraði undankeppnina með fáheyrðum yfirburðum. Lagið hafði reyndar verið samið tveimur árum fyrr og Hörður hafði ætlað því hlutverk í keppninni 1989 en þá var ekki haldin eiginleg undankeppni vegna sparnaðar hjá Ríkissjónvarpinu heldur voru sex lagahöfundar valdir til að semja lög og því gat hann ekki sent lagið inn þá. Lagið sigraði því 1990 í staðinn og varð því framlag Íslands í Eurovision keppninni í Júgóslavíu þar sem Stjórnin flutti lagið eins og alþekkt er og hafnaði þar í fjórða sæti.

Hörður með gítar 12 ára gamall

Eitt lag enn kom Herði rækilega á tónlistarkortið og skyggði reyndar um leið á Geirmund Valtýsson sem hafði fram að þessu sent lög í keppnina sem kennd hafa verið við skagfirska sveiflu en Eitt lag enn er af svipuðu meiði og mun Geirmundur ekki hafa verið alveg ánægður með sigur fyrrverandi bassaleikara síns og taldi hann hafa stolið frá sér stílnum. Lagið hefur gert það gott í gegnum tíðina, er löngu orðið að sígildum Eurovision-smelli og smáskífa Stjórnarinnar með laginu mun hafa selst víða um Evrópu á sínum tíma, auk þess gaf sænska söngkonan Kiki Anderson lagið út í Svíþjóð en þar í landi mun hljómsveit Sven Ingvars einnig hafa flutt lagið einhverju sinni í sjónvarpsþætti.

Eitt lag enn varð einnig titillag breiðskífu Stjórnarinnar í kjölfarið en það naut fáheyrðra vinsælda um sumarið og það hjálpaði Styrmingu einnig sem hafði lagið að sjálfsögðu á ballprógrammi sínu og lék á sveitaböllum um land allt og reyndar einnig á höfuðborgarsvæðinu en fram að því hafði sveitin einskorðað sig við Norðurlandið – þetta varð enn fremur til þess að Styrming átti tvö lög á safnplötunni Hitt og þetta aðallega hitt alla leið og samdi Hörður annað þeirra en þau vöktu ekki mikla athygli. Hörður átti reyndar tvö önnur lög á plötu Stjórnarinnar því þar voru einnig lögin Yatzy og Til í allt, sem bæði nutu mikilla vinsælda um sumarið.

Vinsældir laga Harðar sumarið 1990 urðu honum hvatning til frekari verka í tónlistinni og næstu árin á eftir átti hann eftir að birtast oftar í undankeppnum Eurovision keppninnar og fleiri keppnum. Árið 1991 lenti lag hans, Í dag í öðru sæti keppninnar (á eftir Draumi um Nínu) en það var flutt af Helgu Möller, Ernu Þórarinsdóttur, Kristjáni Gíslasyni og Arnari Frey Gunnarssyni, það sama ár sendi hann lagið Enginn eins og þú í Landslagskeppnina svokölluðu og hafnaði það einnig í öðru sæti (á eftir Ég aldrei þorði, flutt af Önnu Mjöll Ólafsdóttur) – hljómsveit hans Styrming sem um þetta leyti breytti nafni sínu í Herramenn, flutti lagið ásamt Ruth Reginalds. 1992 náði lag Harðar, Einfalt mál inn í undankeppnina en það var flutt af Ruth Reginalds og Karli Örvarssyni (endaði í fimmta sæti) og árið 1995 átti hann tvö lög, Í góðum gír og Horfi á þig (við texta Ársæls Guðmundssonar) í Sæluvikukeppni Sauðkrækinga og hafnaði síðarnefnda lagið í þriðja sæti keppninnar, söngkonan Ásdís Guðmundsdóttir söng það lag en Hörður söng sjálfur hitt lagið. Langur tími leið nú þar til næst heyrðist til hans í lagakeppnum sem þessum en það var árið 2006 þegar lag hans, 100%, sungið af Rúnu Stefánsdóttur komst í úrslit undankeppni Eurovision hér heima. Flest þessara laga hafa komið út á plötum.

Hörður G. Ólafsson

Hörður starfaði áfram með Herramönnum og sendi sú sveit frá sér lag við texta Ársæls Guðmundssonar (Það falla regndropar) á safnplötunni Lagasafnið 3 árið 1993 og heyrðist það lag stundum leikið á útvarpsstöðvunum. Haustið 1994 sagði Hörður hins vegar skilið við sveitina og stofnaði nýja hljómsveit, tríó sem hlaut nafnið Norðan þrír og síðar bættist fyrrnefnd söngkona, Ásdís Guðmundsdóttir í hópinn og hét hún þá Norðan þrír plús Ásdís. Sú sveit átti eftir að leika heilmikið fyrir norðan næstu árin en kom stöku sinnum suður yfir heiðar og lék t.a.m. í Danshúsinu í Glæsibæ. Hörður fór í auknum mæli einnig að koma fram einn með hljómborðsskemmtara og það átti smám saman eftir að taka við af hljómsveitastússinu. Hann kom þannig fram víða um land og nú var Norðurlandið ekki eitt undir enda var mun auðveldara og ódýrari útgerð að ferðast einn með græjur um vegi landsins, stundum voru þó einnig fleiri með í för s.s. Ásdís söngkona eða Hlynur Guðmundsson gítarleikari og þá gengu þau undir nafninu Hljómsveit Harðar G. Ólafssonar – þá var hann um tíma um aldamótin nokkuð í samstarfi við Eirík Hilmisson gítarleikara. Heilmikið var að gera hjá Herði í þessum eins manns bransa, hann lék mikið á árshátíðum, afmælum og öðrum smærri viðburðum en einnig á þorrablótum og m.a. hjá Íslendingum í Chicago í Bandaríkjunum. Djúpavík, Dalvík, Vestmannaeyjar, Borgarnes og Ólafsvík eru svo dæmi um staði sem hann spilaði á hér á landi á þessum árum.

Hörður hélt auðvitað áfram að semja tónlist og lög eftir hann komu m.a. út á plötum Rökkurkórsins (Söngurinn minn / Náttúran), karlakórsins Heimis (Sönggleði) og Karlakórsins Hreims (Vormarsinn), og haustið 1998 var komið að því að hann sendi frá sér breiðskífu í eigin nafni. Hún hlaut nafnið Fyrir þig, og hafði að geyma ellefu frumsamin lög og voru nokkrir textanna einnig eftir hann sjálfan. Hörður hafði einvala lið tónlistarmanna og söngvara með sér á plötunni og hér má nefna söngvarana Pálma Gunnarsson, Björgvin Halldórsson, Guðrúnu Gunnarsdótur og Sigríði Beinteinsdóttur, sum laganna höfðu komið út áður s.s. Eitt lag enn en önnur höfðu ekki heyrst áður – þeirra á meðal var lagið Drengur sem Hörður hafði samið tólf ára gamall. Platan hlaut ágæta dóma í Degi og þokkalega í Morgunblaðinu og DV.

Hörður hafði menntað sig í tannsmíði á yngri árum og starfað sem slíkur heima á Sauðárkróki frá árinu 1976 og haft spilamennskuna sem aukabúgrein, en árið 2005 fluttist hann suður til Reykjavíkur og hóf að starfa þar sem tannsmiður. Um leið færðist spilamennskan suður yfir heiðar og næstu árin lék hann mikið á höfuðborgarsvæðinu, einkum á Catalínu í Kópavoginum en einnig á stöðum eins og Fjörukránni í Hafnarfirði og reyndar miklu víðar. Eftir að hann hætti að vinna árið 2020 (vegna aldurs) hefur hann einbeitt sér að tónlistinni og á síðustu árum hefur hann verið að senda frá sér smáskífur á tónlistarveitum.

Í blaðaviðtali sagðist Hörður hafa leikið á um 1600 dansleikjum á bassa sem var einmitt umræðuefni viðtalsins, en ljóst er að ef taldir eru með allir dansleikir þar sem hann hefur verið einn á ferð með skemmtara eða leikið á gítar í hljómsveitum, að þá er sú tala mun hærri. Það hlýtur að teljast þokkalegt fyrir mann sem hefur haft tónlistina sem aukabúgrein.

Efni á plötum