
Hólmfríður Benediktsdóttir
Að þessu sinni eru þrjár söngkonur á afmælislista Glatkistunnar:
Þingeyingurinn Erla Stefánsdóttir söngkona hefði átt afmæli á þessum degi. Erla fæddist 1947, fluttist ung til Akureyrar og gerðist þar söngkona hljómsveitarinnar Póló. Lagið Lóan er komin varð vinsælt í flutningi hennar á lítilli plötu 1967 en Erla átti eftir að syngja mörg lög inn á plötur þótt ekki nytu þau jafnmikilla vinsælda og Lóan er komin. Erla fluttist til Reykjavíkur á tíunda áratugnum og lést árið 2012.
Önnur söngkona, Kristbjörg (Didda) Löve hefði einnig átt þennan afmælisdag en hún lést 2002. Kristbjörg fæddist sama dag og Erla Stefáns (1947), söng með ýmsum danshljómsveitum á höfuðborgarsvæðinu frá 1970 s.s. G.P. kvintettnum, Hljómsveit Jóns Sigurðssonar, Ásum, Sólum, Kompás og Neistum svo dæmi séu tekin. Kristbjörg samdi tónlist sjálf en ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort einhver þeirra hafi komið út á plötum.
Þriðja söngkonan sem á þennan afmælisdag er Hólmfríður (Sigrún) Benediktsdóttir en hún er reyndar einnig þekktur kórstjórnandi, hefur stjórnað alls kyns kórum en mest þó barna- og stúlknakórum á norðanverðu landinu, hér má nefna Stúlknakór Húsavíkur, Unglingakór Borgarhólsskóla, Kvennakórinn Lissý og Sólseturkórinn svo aðeins fáeinir kórar séu nefndir af handahófi. Hólmfríður heldur í dag upp á sjötíu og fimm ára afmæli sitt.














































