
Þorleifur Guðjónsson
Í dag eru sjö afmælisbörn í gagnabanka Glatkistunnar:
Þorleifur J. Guðjónsson bassaleikari er sextíu og níu ára gamall á þessum degi. Þorleifur hefur starfað í ótal hljómsveitum fyrst sem gítarleikari en síðan á bassa, sumum þekktum en öðrum minna þekktum. Hér eru nefndar nokkrar en þeim fer fjölgandi: KK-band, Egó, Samsara, Strákarnir, Vinir Dóra, Ómar og Valdi, Óli fink, The Grinders, Frakkarnir, Óregla, MX-21, Fjórir litlir sendlingar, Mórall og Þrír á palli. Þorleifur er enn að.
Þá er rapparinn Aron Can Gultekin tuttugu og sex ára í dag. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Aron rappað í fjölda ára en hann byrjaði aðeins níu ára gamall. Hann tók þátt í Músíktilraunum 2015 með hljómsveitinni Epik en vakti fyrst verulega athygli fyrir plötuna og samnefnt lag, Þekkir stráginn, síðan hafa fleiri lög og plötur fylgt í kjölfarið. Hann hefur ennfremur unnið með öðru tónlistarfólki s.s. í Iceguys hópnum, með Emmsjé Gauta, Unnsteini Manúel o.fl.
Kjartan Ólafsson tónskáld á afmæli í dag en hann er sextíu og sjö ára gamall. Kjartan lék hér fyrrum með fjölda hljómsveita svosem Trítiltoppakvartettnum og Smartbandinu og samdi m.a. lagið Lalíf sem mörgum er minnisstætt. Hann hefur auk þess gefið út fjölmargar plötur með tónlist sinni, samið leikhús- og óperutónlist, tónverk fyrir hljómsveitir og hljóðfæri, og var meðal þeirra fyrstu hér á landi til að semja tónlist með aðstoð tölvu en þar hefur hann notað forritið Calmus sem hann hannaði sjálfur.
Magnús Trygvason Eliassen trommuleikari fagnar stórafmæli en hann er fertugur í dag, hann þarf sjálfsagt ekkert að kynna því fáir hafa leikið inn á jafnmargar plötur og leikið með jafn mörgum hljómsveitum og hann þrátt fyrir að vera ekki eldri en þetta. Meðal sveita hans má nefna Moses Hightower, ADHD, Ferlíki, Llama, Tepokann, Hist, K-tríó, Kynslóðabandið, Geisla, Reginfirru, Mikaels Mána trio og Amiinu. Þá hefur hann einnig gefið út plötu í félagi við Sólrúnu Sumarliðadóttur.
Stefán Þorleifsson píanóleikari, tónlistarkennari, organisti og kórstjórnandi er fimmtíu og níu ára gamall í dag. Stefán hefur stjórnað kórum eins og Barnakór Þorlákshafnar, Íslendingakórnum í Álaborg, Uppsveitasystrum og Barnakór Selfosskirkju en hefur aukinheldur stýrt Lúðrasveit Þorlákshafnar, skólahljómsveitum o.fl. Þá hefur hann einnig gefið út plötu.
Þá er tónlistarmaðurinn Matthías Már Kristiansen sjötíu og fimm ára á þessum degi. Matthías hefur leikið á gítar með hljómsveitum eins og Hrím, Opus, Bössum, Snarli, GMW, FH-bandinu, Íslenska búsúkítríóinu, Lummósveit lýðveldisins, Blússveit Júlíu Hannam og Hvísli sem sumar hverjar léku þjóðlagatónlist, og einhverjar þeirra gáfu jafnframt út plötur.
Að síðustu er hér nefndur svarfdælski söngvarinn Jóhann Daníelsson (1927-2015) sem söng inn á fjölmargar plötur um ævina, m.a. eina einsöngsplötu í eigin nafni og aðra ásamt Eiríki Stefánssyni. Hann söng jafnframt lengi með Karlakór Dalvíkur og Karlakórnum Geysi og söng oft einsöng með þeim kórum, færri vita að Jóhann var söngvari og gítarleikari hljómsveitarinnar Tónatríós á Dalvík í kringum 1960.














































