Afmælisbörn 3. desember 2025

Dóra Sigurðsson

Afmælisbörn dagsins eru átta á þessum degi:

Pétur Östlund trommuleikari er áttatíu og tveggja ára í dag, hann lék með mörgum af þekktustu sveitum bítlatímabilsins og eru Hljómar og Óðmenn þeirra þekktastar en einnig með sveitum eins og Hljómsveit Finns Eydal, Hljómsveit Gunnars Ormslev, Musica prima og Útlendingahersveitinni. Hann var síðar kunnari fyrir djasstrommuleik og er mjög virtur sem slíkur. Pétur á að baki eina sólóplötu.

Birkir Freyr Matthíasson trompetleikari á fimmtíu og eins árs afmæli á þessum dagi. Birkir Freyr hefur starfað með hljómsveitum s.s. Jagúar, Sunnan sex, Bréfsnjef kvartettnum, Stórsveit Reykjavíkur og Samspili Óla Jóns en hefur fyrst og fremst verið session maður og leikið þ.a.l. inn á fjölda platna annarra listamanna, hann hefur jafnframt starfað töluvert í leikhúsinu.

Sigurjón Skæringsson rokksöngvari fagnar í dag sextíu og þriggja ára afmæli sínu. Sigurjón hefur sungið og leikið á gítar með ýmsum hljómsveitum í gegnum tíðina en hér eru nefndar sveitir eins og Chernobyl, Stálfélagið, Mæðusöngvasveit Reykjavíkur, Bárujárn og Þjófar.

Aðalsteinn Bjarnþórsson (stundum áður kallaður Alli Langbrók) gítarleikari og söngvari er sextíu og eins árs gamall á þessum degi. Aðalsteinn var nokkuð áberandi í tónlistarsenunni hér áður og starfaði þá með hljómsveitum eins og Langbrók, Stiftamtmannsvalsinum, Útrás, Cuba libre, Doriu og Gypsy.

Atli Már Rúnarsson trommuleikari frá Akureyri er fimmtíu og fjögurra ára gamall í dag. Atli Már hefur leikið með fjölda hljómsveita í gegnum tíðina og hér eru nefndar Helgi og hljóðfæraleikararnir, Hreinir sveinar, Best, Attack, Múspellssynir og Hljómsveit Rúnars Þórs svo einhverjar séu upp taldar.

Þá er hér einnig nefndur Jóhannes Birgir Pálmason tónlistarmaður og útgefandi sem fagnar fjörutíu og fjögurra ára afmæli sínu á þessum degi. Jóhannes hefur starfað með ýmsum hljómsveitum og verkefnum og hér má nefna Human substance, Epic rain, Audio improvement og Twisted minds. Hann hefur einnig starfað og gefið út tónlist undir nafninu Rain.

Svanur D. Vilbergsson gítarleikari og tónskáld er fjörutíu og fjögurra ára gamall í dag. Svanur sem kemur upphaflega frá Stöðvarfirði nam hér heima og síðan í Bretlandi og víða erlendis og hefur komið fram víða um lönd á tónleikum en hann starfar við kennslu í dag. Hér áður lék hann með fáeinum hljómsveitum og hér má nefna Coma, Blúsbrot Garðars Harðar og Steinþór. Svanur hefur sent frá sér sólóefni.

Dóra Sigurðsson söngkona hefði einnig átt afmæli þennan dag. Dóra fæddist 1892 í Þýskalandi og kynntist Haraldi Sigurðssyni píanóleikara þar en þau giftust síðar. Hún starfaði lengst af í Danmörku en kom reglulega hingað til lands ásamt eiginmanni sínum til tónleikahalds og varð fyrsta konan til að syngja inn á plötu hérlendis. Dóra lést 1985.