Hafnarfjarðar-Gullý (1932-2000)

Hafnarfjarðar-Gullý

Guðmunda Jakobína Ottósdóttir eða Hafnafjarðar-Gullý eins og hún er nefnd á umslagi safnplötunnar Drepnir var hafnfirsk alþýðukona fædd 1932, hún var þekktur Hafnfirðingur og þótti skrautlegur karakter, átti ekki alltaf auðvelt líf og mun hafa misst tvo eiginmenn af slysförum.

Hún lék á gítar og söng fyrir sig og aðra og hafði yndi af því að syngja fyrir börn og líklega hafa forsvarsmenn áðurnefndrar safnplötu, Drepnir haft af henni kynni áður en platan var gefin út af nemendum Flensborgarskóla árið 1996. Platan var einhvers konar afrakstur tónlistarstarfs þar og hafði að geyma efni menntskælinganna en Hafnarfjarðar-Gullý skipaði þar eins konar heiðurssess með tvö frumsamin lög í trúbadorastíl – fyrsta og síðasta lag plötunnar. Hún gæti jafnframt hafa komið fram á útgáfutónleikum tengdum plötunni, alltént var hún auglýst þar.

Guðmunda lést árið 2000, hún hafði þá búið á Skjólvangi í Hafnarfirði um tíma og sungið þar og leikið fyrir íbúa og starfsfólk stofnunarinnar.