Halldór Jónsson (1873-1953)

Séra Halldór Jónsson

Séra Halldór Jónsson prestur á Reynivöllum í Kjós var á fyrri hluta 20. aldarinnar meðal afkastamestu alþýðutónskálda landsins en líklega samdi hann vel á þriðja hundrað söng- og sálmalaga, ríflega helmingur þeirra kom út í nótnaheftum og mörg þessara laga voru vel þekkt og sungin við raust á samkomum í Kjósahreppnum á sínum tíma.

Halldór Jónsson fæddist á Stóra-Ármóti í Flóahreppi í desember 1873. Að loknu námi við Latínuskólann og Prestaskólann vígðist hann sem prestur að Reynivöllum í Kjósahreppi haustið 1899 og þar átti hann eftir að þjóna í yfir fimmtíu ár sem vinsæll og virtur prestur sem einnig tók virkan þátt í öllu félags- og menningarstarfi í sveitinni auk þess að gegna starfi oddvita og sýslunefndarmanns um árabil. Samhliða prests- og félagsstörfum barðist Halldór fyrir bættum kirkjusöng, m.a. með því að hvetja til aukins safnaðasöngs, og ritaði hann fjölmargar greinar um efnið sem og hélt fyrirlestra víða um það.

Halldór var einnig afkastamikið tónskáld, hann var ekki menntaður á því sviði en mun hafa haft tónlist í sér og væntanlega leikið eftir eyranu á harmoníum og píanó því hann mun hafa kennt sveitungum sínum eitthvað á hljóðfæri. Hann sinnti sköpunarþörf sinni með smíði sönglaga sem náðu nokkurri útbreiðslu í Kjósahreppi og víðar því oft birtust lög eftir hann á nótnaformi í blöðum og tímaritum. Á þriðja og fjórða áratug 20. aldarinnar komu út á vegum Ungmennafélagsins Drengs í Kjósahreppi fjögur nótnahefti undir nafninu Söngvar fyrir alþýðu, raddsettir fyrir harmoníum eða píanó – I. – IV. hefti, þrjú fyrstu heftin höfðu að geyma almenn söng- og ættjarðarlög eftir Halldór við ljóð ýmissa skálda en fjórða heftið innihélt sálmalög eftir hann. Hugsanlega voru einhver þeirra sálmalaga tengd Passíusálmum Hallgríms Péturssonar en Halldór hafði þá samið lög við flesta ef ekki alla Passíusálmana. Þegar hann fagnaði sjötugs afmæli sínu sagði hann að um hundrað og sjötíu sönglög hefðu þá komið út á nótum en annað eins biði óprentað.

Halldór naut mikillar virðingar fyrir starf sitt í Kjósinni og á stórafmælum heiðruðu sveitungar hans yfirleitt með myndarlegum hætti, færðu honum gjafir og við þau tækifæri voru lög hans sungin af kórunum í sveitinni. Þess má og geta að þegar hann fagnaði sjötugs afmælinu var útvarpsþáttur helgaður sönglögum hans en Kirkjukór Nessóknar söng þau í útvarpssal.

Halldór Jónsson

Þegar styttist í áttræðis afmæli Halldórs gaf hann Átthagafélagi Kjósverja útgáfuréttinn að handritum sem hann hafði þá unnið að árin á undan, þar má fyrst nefna endurminningar hans sjálfs sem komu svo út á vegum félagsins um það leyti sem Halldór lést (fáeinum dögum eftir 80 ára afmælið haustið 1953) undir titlinum Ljósmyndir I – Húsvitjun, en næstu tvö bindi Endurminningar (fyrri og seinni hluti) komu út haustið 1954. Hann hafði þá einnig unnið að handriti sem hann nefndi Íslenzk tónskáld og tónmenningarfrömuði frá síðari hluta 19. aldar (um íslensk tónskáld og tónmenningarsögu Íslands) og það sem kallað var Tónskáldasaga Íslendinga í Vesturheimi en þær bækur hafa aldrei komið út svo kunnugt sé en hafa líklega að geyma mikinn fróðleik sem ekki finnst annars staðar á prenti. Átthagafélag Kjósverja hlaut jafnframt útgáfuréttinn að öllum tónsmíðum Halldórs, einnig þeim sem ekki höfðu áður komið út en félagið nýtti sér aldrei þann rétt. Þeir átthagafélagsmenn stóðu hins vegar fyrir því að láta gera brjóstmynd af honum og var hún staðsett við Reynivallakirkju og stendur þar ennþá.

Ekki liggur fyrir hvort söng- og sálmalög séra Halldórs Jónssonar hafi komið út á plötum en það hlýtur þó að teljast nokkuð líklegt.