
Halldór Pétursson
Mynlistarmaðurinn Halldór Pétursson var vissulega ekki tónlistarmaður en kom þó að tónlist sem teiknari plötuumslaga en hann teiknaði fjölmörg slík fyrir SG-hljómplötur á sínum tíma.
Halldór (1916-77) nam list sína hér heima, fyrst hjá Guðmundi (Muggi) Thorsteinssyni og síðan Júlíönu Sveinsdóttur áður en hann fór utan til Danmerkur og Bandaríkjanna til að mennta sig frekar í myndlist og auglýsingateikningu. Hann hannaði mörg af þekktustu lógóum Íslandssögunnar, hér má nefna merki Reykjavíkur-borgar, Flugfélags Íslands og Rafmagnsveitna Reykjavíkur en einnig teiknaði hann peningaseðla, frímerki og fleira. Hann er þó líklega þekktastur fyrir magnaðar dýramyndir en stíll hans var auðþekkjanlegur og margir muna eftir myndskreytingum hans t.a.m. í bókinni Helgi skoðar heiminn. Halldór var á sínum tíma einn alvinsælasti teiknari þjóðarinnar, myndskreytti forsíður blaða og tímarita eins og Vikunnar og Spegilsins, og myndaseríur hans í tengslum við skákeinvígi aldarinnar 1972 og þorskastríðið við Breta eru enn mörgum í fersku minni. Svavar Gests hljómplötuútgefandi fékk Halldór jafnframt til að teikna og hanna fjölmörg plötuumslög á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.















































