
Haraldur Björnsson um 1930
Haraldur Björnsson var húsvískur harmonikkuleikari sem var virkur í samfélagi harmonikkuleikara í Suður-Þingeyjarsýslu en var líklega þekktari fyrir að fara við annan mann umhverfis landið með harmonikkutónleika.
Haraldur var Húsvíkingur, fæddur sumarið 1910 og lærði sem barn lítillega á orgel en bæði faðir hans og bróðir léku á harmonikkur. Fjórtán ára eignaðist hann sína fyrstu nikku og um tveimur árum síðar (1926) hóf hann að leika opinberlega á dansleikjum á Húsavík og nágrenni ásamt bakaranum Marinó Sigurðssyni. Haraldur átti eftir að fást við ýmis störf á yngri árum og var m.a. á síldarárunum á Raufarhöfn þar sem hann spilaði einnig á dansleikjum, síðar varð hans aðalstarf húsamálun á Húsavík.
Þeir félagar Haraldur og Marinó störfuðu saman í nokkur ár, ýmist tveir saman eða fleiri á dansleikjum en hæst bar samstarf þeirra þegar þeir fóru umhverfis landið og héldu tónleika haustið 1929 við góða aðsókn, Akureyri, Ísafjörður, Stykkishólmur og Reykjavík voru meðal tónleikastaða og vakti tiltækið mikla athygli enda tíðkaðist slíkt tónleikahald ekki á þeim tíma, að öllum líkindum voru þeir fyrstir allra til þess. Þeir Haraldur og Marinó endurtóku leikinn tveimur árum síðar en þá var kreppan farin að segja til sín og aðsókn var mun minni.
Árið 1930 stóð til að þeir myndu troða upp á Alþingishátíðinni sem haldin var á Þingvöllum í tilefni 1000 ára afmælis alþingis en hætt var við þau áform þegar hægt var að fá dönsku harmonikkuleikarana Gellin og Borgström í þeirra stað. Sú hugmynd kom einnig upp að þeir félagar færu jafnvel utan og tækju upp nokkur lög til að gefa út á plötu en ekkert varð úr þeim áformum, Haraldur fór hins vegar árið 1942 suður til Reykjavíkur og lék nokkur lög í útvarpssal. Þær upptökur munu ekki hafa verið varðveittar en aðrar slíkar frá 1975 og voru gerðar á Akrureyri voru síðar yfirfærðar á stafrænt form gefnar út í litlu geisladiska upplagi af plötusafnaranum Sigurjóni Samúelssyni á Hrafnabjörgum árið 2005. Platan bar heitið Haraldur Björnsson leikur á harmóníku og hefur að geyma tólf lög, ekki liggur fyrir hvort einhver laganna eru eftir Harald sjálfan en hann mun hafa samið lög, og m.a. komist í úrslit sönglagakeppni SKT árið 1952 með lagasmíð sína.
Haraldur var einn af stofnendum Harmonikufélags Þingeyinga 1978, hann starfaði með hljómsveitum innan félagsins, Laskabútum, Úreldingu og Strákabandinu og var virkur í félagsstarfinu alla tíð, og fór m.a. í ferðir erlendis á vegum þess. Hann var enn að spila á nikkuna fram til 1992 að minnsta kosti en hann lést vorið 1996, áttatíu og sex ára gamall.














































