Harmonikufélag Selfoss [félagsskapur] (1991-)

Merki félagsins

Harmonikufélag Selfoss hefur í gegnum tíðina verið nokkuð öflugt í starfsemi sinni þegar á heildina er litið þótt vissulega hafi skipst á skin og skúrir hjá því.

Félagið var stofnað haustið 1991 undir nafninu Félag harmonikuunnenda á Selfossi og nágrenni (F.H.S.N.) og starfaði reyndar undir því nafni allt til ársins 2003 að því var breytt í Harmonikufélag Selfoss. Sextán manns komu að stofnun félagsins og fjölgaði þeim svo jafnt og þétt um árabil enda var félagsstarfið öflugt lengi vel, formennsku í félaginu hafa gegnt Ólafur Th. Ólafsson, Gísli Geirsson, Birgir Hartmannsson, Guðmundur Ægir Theodórsson og Þórður Þorsteinsson, e.t.v. fleiri.

Harmonikufélag Selfoss hefur staðið fyrir ýmsum uppákomum í starfi sínu, allt frá spilamennsku á 17. júní til dansleikja og harmonikkuhátíða. Félagið hefur aukinheldur sent frá sér eina plötu, það var árið 2013 og bar hún yfirskriftina Vangaveltur, eftir upphafslagi hennar. Á henni var að finna átján lög úr ýmsum áttum.

Svo virtist sem félagið væri við það að lognast útaf um miðjan annan áratug nýrrar aldar en með samvinnu við Harmonikufélag Rangæinga sem var í svipuðum sporum hafa félögin tvö gengið í endurnýjun lífdaga án þess þó að til sameiningar þeirra hafi komið.

Efni á plötum