
Merki félagsins
Harmonikufélagið Nikkólína hefur starfað í Dölunum um árabil, allt frá árinu 1981.
Nikkólína var stofnuð haustið 1981 en aðal hvatamaður að stofnun félagsins var Kristján Ólafsson tónlistarkennari í Dölunum. Félagið gekk reyndar fyrsta árið undir nafninu Harmonikkufélag Dalamanna en nafni þess var breytt í Harmonikufélagið Nikkólína á fyrsta aðalfundi þess haustið 1982. Kristján var jafnframt kjörinn fyrsti formaður félagsins en aðrir formenn í gegnum tíðina hafa verið Jón Benediktsson, Guðbjartur Björgvinsson, Kristjón Sigurðsson, Guðmundur Gíslason, Ríkharður Jóhannsson, Jóhann Elísson, Sigrún Halldórsdóttir, Árni Sigurðsson, Alda Friðgeirsdóttir, Árni Sigurðsson (aftur), Melkorka Benediktsdóttir, Ásgerður Jónsdóttir og Melkorka aftur á síðustu árum.
Félagið hefur stundum verið í samstarfi við tónlistarskólann í Búðardal og t.d. var gerð tilraun til að leiðbeina félagsmönnum um nótnalestur, það gekk reyndar ekki sem skyldi þar sem áhuginn var af skornum skammti.
Stofnfélagar Nikkólínu voru nítján talsins en þeir léku allir á harmonikkur, síðan hefur hlutfall harmonikkuleikaranna lækkað eftir því sem félagsmönnum hefur fjölgað en þeir hafa verið allt upp í fimmtíu til sextíu – flestir þeirra eru bændur í Dölunum. Innan félagsins hefur alltaf verið hljómsveitastarf, allt upp í þrjár hljómsveitir samtímis sem hlýtur að teljast gott hjá ekki stærra félagi en þekktust sveitanna er hljómsveit sem er samnefnd félaginu og kallast einfaldlega Nikkólína. Sú sveit sendi frá sér tvöfalda plötu árið 1991, Nikkólína spilar á Saumastofudansleik 1991 en hún var hljóðrituð í Ríkisútvarpinu. Hljómsveitir félagsins hafa leikið á samkomum þess en reglulega eru haldin skemmtifundir , þorrablót og dansleikir, og þá hafa félagsmenn jafnframt komið fram á hátíðum eins og Jörfagleði, Daladögum, Leifshátíð og víðar, á síðustu árum hefur færst í vöxt að liðsmenn félagsins hafi leikið fyrir eldri borgara.














































