Kvennakór var starfræktur um nokkurra ára skeið á Akureyri á fjórða áratug síðustu aldar og gekk hann undir nafninu Harpa þegar hann loks hlaut nafn.
Kórinn hafði verið stofnaður af Áskeli Snorrasyni innan verkakvennafélagsins Einingar á Akureyri árið 1933 og söng hann undir stjórn Áskels á skemmtunum og samkomum félagsins, nokkur ár liðu uns kórinn hlaut nafn sitt. Undir það síðasta var kórinn farinn að koma fram á samkomum utan Einingar, s.s. á héraðsmótum og þá gengu jafnframt í hann konur sem ekki voru í félaginu.
Árið 1939 hélt Harpa sína fyrstu og einu sjálfstæðu tónleika en þeir fóru fram í Nýja bíói á Akureyri, þar söng Guðrún Jónsdóttir einsöng með kórnum. Í umfjöllun Þjóðviljans um tónleikana var honum hrósað og sagt að hann ætti langa og bjarta framtíð fyrir sér – hvort sem það var því eða einhverju öðru um að kenna þá starfaði kórinn ekki lengi eftir þetta, á 1. maí samkomu vorið 1940 var kórinn aðeins svipur hjá sjón enda hafði þá kvarnast mjög úr hópnum og í kjölfarið var saga Hörpu öll. Áskell Snorrason stjórnaði honum allan tímann sem hann starfaði.














































