Harry Herlufsen (1913-2006)

Harry Herlufsen

Danski tónlistarmaðurinn Harry Herlufsen bjó hér á landi og starfaði um nokkurt skeið um miðja síðustu öld og setti heilmikinn svip á ísfirskt tónlistarlíf.

Harry Otto August Herlufsen (f. 1913) var fæddur og uppalinn í Danmörku en kom hingað til lands líklega árið 1933, bjó fyrst í Hafnarfirði en fluttist síðan vestur á Ísafjörð að því er virðist til að leika með hljómsveit þar í Alþýðuhúsinu. Harry lék svo með einhverjum ónafngreindum sveitum fyrir vestan, m.a. með Guðmundi Finnbjörnssyni og Jóni Jónssyni á Hvanná, og síðar með sonum sínum Sigurði og Stíg auk Jóns á Hvanná. Hann mun hafa sungið með síðarnefndu hljómsveitinni í gegnum trekt en söngkerfi og magnaragræjur voru þá ekki komnar til sögunnar.

Harry starfaði um tíma (1944-45 að minnsta kosti) með hljómsveit Gunnars Hallgrímssonar en sú hljómsveit lék m.a. undir á tónleikum Sunnukórsins á Ísafirði, þar var Harry píanóleikari en hafði að líkindum leikið á trommur með hinum sveitunum. Hann kom einnig eitthvað fram eins síns liðs sem hljóðfæraleikari en ekki liggur fyrir með hvaða hætti það var.

Harry var hárskerameistari að mennt og opnaði rakarastofu á Ísafirði að öllum líkindum árið 1940, og þar starfrækti hann hana til ársins 1959 þegar hann seldi Vilberg Vilbergssyni (Villa Valla rakara og tónlistarmanni) stofuna sem rak hana um árabil og um tíma ásamt Samúel Einarssyni (enn einum rakaranum og tónlistarmanninum).

Harry sem stjórnandi Lúðrasveitar Ísafjarðar

Harry lék á ýmis hljóðfæri, var lærður trommuleikari en lék einnig á píanó og blásturshljóðfæri (allavega trompet) og svo fór að hann hóf að kenna við tónlistarskólann á Ísafirði líklega árið 1950, aðallega blásturshljóðfæri og stofnaði þá barnalúðrasveit við skólann, hann gerði veturinn 1950-51 tilraun til að endurreisa Lúðrasveit Ísafjarðar með þeim mannskap en hún hafði þá ekki starfað um nokkurra ára skeið, það gekk ekki eftir í það skiptið en 1954 var sveitin endurreist og stjórnaði Harry henni allt til 1959 þegar hann fluttist aftur til Danmerkur.

Ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um tónlistarferil Harry Herlufsen eftir að hann flutti aftur heim til Danmerkur en hann lést á nítugasta og fjórða aldursári sínu, haustið 2006.