
Valgerður Jónsdóttir sigurvegari Hátónsbarkakeppninnar 1989
Allt frá árinu 1988 hefur verið haldin söngkeppni í samstarfi félagsmiðstöðvarinnar Arnardals og grunnskólanna á Akranesi, Brekkjubæjarskóla og Grundaskóla undir nafninu Hátónsbarkakeppnin eða Hátónsbarkinn. Þessi keppni hafði lengi vel enga utanaðkomandi tengingu en eftir að Samfés hóf að standa fyrir söngkeppni Samfés hefur keppnin verið eins konar undankeppni fyrir Samfés keppnina.
Hátónsbarkakeppnin var haldin í fyrsta sinn haustið 1988 og hafði nafn hennar klárlega skírskotun til Látúnsbarkakeppni Stuðmanna sem hafði verið haldin árið á undan, átta keppendur tóku þátt í þessari fyrstu keppni – sex stúlkur og tveir strákar og var sigurvegari hennar Ragnheiður Hafsteinsdóttir, kynjahlutfallið átti eftir að halda svipað þar sem stúlkur voru mun fjölmennari.
Sem fyrr segir var Hátónsbarkinn keppni Brekkubæjar- og Grundaskóla í samstarfi við félagsmiðstöðina Arnardal og var keppnin haldin næstu árin með svipuðu fyrirkomulagi. Árið 1989 sigraði Valgerður Jónsdóttir og um svipað leyti keppti hún með hljómsveitinni Frímanni í Músíktilraunum sem hafnaði þar í öðru sæti og var Valgerður jafnframt kjörin besti söngvari keppninnar. Það árið annaðist hljómsveitin Barkabólgan undirleik fyrir söngvarana en hljómsveitin Tíbrá átti eftir að gera það einnig næstu árin. Árið 1990 sigraði Hallgrímur Ólafsson Hátónsbarkann og árið 1991 Harpa Einarsdóttir en upplýsingar um sigurvegara keppninnar vantar frá árunum 1992 til 1998, dæmi voru um að sigurvegarar keppninnar kæmu fram t.a.m. á 17. júní skemmtunum og öðrum samkomum á Akranesi í kjölfar sigursins.
Árið 1998 voru gerðar þær breytingar á Hátónsbarkakeppninni að hún var haldin undir yfirskriftinni „hæfileikakeppni“ þar sem annars vegar var keppt um Hátónsbarkatitilinn í söng, og hins vegar almenn hæfileikakeppni (Hæfileikakeppni grunnskólanna á Akranesi) þar sem keppendur gafst kostur á að láta ljós sitt skína – og þar voru einnig tónlistaratriði s.s. hljómsveitir. Þetta fyrirkomulag var líklega sett á laggirnar til að laða fleiri stráka að keppninni en stúlkur héldu þó áfram að einoka sönghluta hennar (Hátónsbarkann), þannig sigraði Elsa Jóhannsdóttir árið 1998, Vera Knútsdóttir 1999 en hljómsveitin Funk-gæs hæfileikakeppnina, Helga Ingibjörg Guðjónsdóttir sigraði 2000 og hljómsveitin Nafnleysa hæfileikakeppnina og Ylfa Flosadóttir árið 2001. Frá og með 1999 var Hátónsbarkinn líklega undankeppni fyrir söngkeppni Samfés sem fyrr er nefnd en fram að því hafði sú keppni verið karaoke-keppni milli félagsmiðstöðva (á árunum 1991-98).
Ekki liggur fyrir hver sigraði hátónsbarkann árið 2002 en 2003 sigraði Rakel Pálsdóttir en hún sigraði síðan söngkeppni Samfés í kjölfarið, hljómsveitin Dexters hafði þá unnið hæfileikakeppnishlutann. Engar upplýsingar finnast um sigurvegara ársins 2004 en Regína Björk Vignis Sigurðardóttir sigraði 2005 og þá var hljómsveitin Syna sigurvegari hæfileikakeppninnar. 2006 sigraði Elísabet Traustadóttir Hátónsbarkann og hljómsveitin Darwin blue sigraði hæfileikakeppnina en engar heimildir finnast um hverjir sigruðu á árunum 2007 til 2011 en árið 2012 sigraði Hjördís Tinna Pálmadóttir.

Vera Knútsdóttir Hátónsbarki 1999
Engar upplýsingar er að finna um keppnina árið 2013 en árið 2014 hafði verið komið á því fyrirkomulagi að einn fulltrúi úr hvorum skóla færu sem keppendur í það sem kallað er SamVest (fyrir Vesturland) en það er undankeppni fyrir söngkeppni Samfés. Árið 2014 voru það nöfnurnar Aldís Eir Valgeirsdóttir og Aldís Ísabella Fannarsdóttir, Símon Orri Jóhannsson sigraði 2015 og 2016 voru það annars vegar Ragna Benedikta Steingrímsdóttir og hins vegar Rakel Rúna Eyjólfsdóttir og María Dís Einarsdóttir en hæfileikakeppina sigraði Andri Snær Axelsson sem lék á píanó. 2017 voru það Aldís Inga Sigmundsdóttir og Katrín Lea Daðadóttir sem urðu fulltrúar Skagamanna og árið 2018 Sigríður Sól Þórarinsdóttir og Matthildur Hafliðadóttir. Ekki liggja fyrir upplýsingar um sigurvegara ársins 2019 en ári síðar 2020 fóru Ninja Sigmundsdóttir og Maja Daníelsdóttir fyrir hönd skólanna og Arnardals á SamVest, þar sem keppnin fór fram snemma árs slapp hún til sökum Covid en heimsfaraldurinn setti hins vegar mark sitt á keppnina 2021, sem Hanna Bergrós Gunnarsdóttir sigraði en þá fór Hátónsbarkinn fram fyrir luktum dyrum. Keppnin hafði lengi verið haldin á haustmánuðum en hafði síðustu árin á undan verið haldin í febrúar.
Árið 2022 virðist vera síðasta eiginlega Hátónsbarkakeppnin, þá sigruðu Viktoría Hrund Þórisdóttir og Sylvía Þórðardóttir en síðan þá virðist sem aðeins sé um hæfileikakeppnina að ræða og að tvö efstu söngatriðin fari áfram á SamVest – keppnin er með því fyrirkomulagi ennþá eftir því sem best verður séð.














































