
Haukar 1966
Hljómsveitin Haukar starfaði um árabil norður á Húsavík, um svipað leyti og sveitin var stofnuð var önnur sveit stofnuð sunnan heiða undir sama nafni sem varð til þess að sú norðlenska – sem hér um ræðir var eftirleiðis kölluð Húsavíkur-Haukar til aðgreiningar frá þeirri sunnlensku.
Sveitin var að öllum líkindum stofnuð 1962 en ekki liggur fyrir hverjir skipuðu hana í upphafi, líklega var Hafliði Jósteinsson þó einn þeirra. Aðalsteinn Ísfjörð harmonikkuleikari gekk til liðs við hana líklega ári síðar og starfaði með henni næstu árin og á hin ýmsu hljóðfæri s.s. saxófón, klarinettu, hljómborð og jafnvel trommur, ekki er ljóst hverjir aðrir skipuðu sveitina fyrr en 1966 en þá skipuðu hana auk Aðalsteins þeir Grétar Berg gítarleikari, Steingrímur Hallgrímsson trommuleikari og Árni Gunnar Sigurjónsson bassaleikari, ári síðar hafði Jóhann Helgason komið inn sem trommuleikari og Steingrímur snúið sér að söngnum. Haukar höfðu þá nokkru fyrr farið að kenna sig við heimabæinn eftir deilur við hina reykvísku Hauka og segir sagan að sýslumaðurinn á Húsavík hafi stungið upp á Húsavíkur-Hauka nafninu svo ekki kæmi til dómsmáls.

Húsavíkur-Haukar og Grímseyjar ísbjörninn
Haukar spiluðu mikið á dansleikjum norðanlands, bæði á Húsavík og í nágrannasveitunum og jafnvel um austanvert landið, t.a.m. léku þeir félagar í Atlavík um verslunarmannahelgina 1970 – það sumar og sumarið á undan voru Haukar á ferð og flugi um Norður- og Austurland ásamt hópi af skemmtikröftum eins og Ríó tríói og Jörundi Guðmundssyni á héraðsmótum framsóknarmanna. Um það leyti var sveitin ljósmynduð fyrir auglýsingaplakat með Grímseyjar-ísbirninum svokallaða sem geymdur var á skrifstofu Húsavíkurbæjar, bæjarstjórinn var hins vegar ósáttur við tiltækið og heimtaði að myndunum og filmunum yrði fargað enda var hann sjálfur alþýðuflokksmaður og Haukarnir í samstarfi við framsóknarflokkinn sem fyrr segir.
Á þeim tíma höfðu Steingrímur, Árni Gunnar og Grétar hætt í Haukum en Karl Hálfdánarson bassaleikari og Bragi Ingólfsson trommuleikari komið inn í sveitina með Jóhanni og Aðalsteini og þannig starfaði hún eitthvað fram á árið 1971 en virðist þá hafa hætt störfum um nokkurt skeið, að minnsta kosti finnast engar heimildir um hana fyrr en 1974 að hún var líklega endurreist. Meðlimir sveitarinnar þá og næstu tvö árin voru Jóhannes Geir Einarsson söngvari, Matthildur Rós Haraldsdóttir söngkona, Bragi, Karl og Jóhann, og virðist sem Haukar hafi starfað til haustsins 1976 en þá hætt endanlega störfum eftir um fimmtán ára samstarf.














































