Haukur Daníelsson (1932-2000)

Haukur Daníelsson

Harmonikkuleikarinn Haukur (Sigurður) Daníelsson fæddist í Súðavík sumarið 1932 en ólst upp á Ísafirði frá tveggja ára aldri. Hann mun hafa verið um sex ára aldur þegar hann byrjaði að leika á harmonikku en hann spilaði jafnan eftir eyranu og naut lítillar sem engar tónlistarkennslu. Hann hóf að leika á dansleikjum fremur ungur að árum og lék þá með föður sínum Daníel Rögnvaldssyni sem var kunnur harmonikkuleikari.

Svo virðist sem Haukur hafi lagt harmonikkuna að mestu leyti á hilluna opinberlega í bili eftir það og næstu áratugina stundaði hann sjómennsku (hann var vélstjóri að mennt) og starfaði sem steypubílstjóri svo dæmi séu nefnd, en haustið 1986 var hann einn af stofnendum Harmonikufélags Vestfjarðar og varð þá aftur „virkur“ harmonikkuleikari, lék þá oft á samkomum félagsins og víðar. Sigurjón Samúelsson frá Hrafnabjörgum gaf út plötu með harmonikkuleik Hauks undir titlinum Uppsalaminning: Haukur Daníelsson leikur á harmóníku en litlar upplýsingar er að finna um þessa útgáfu og telst hún í raun vera óopinber. Uppsalir sem vísað er til í titli plötunnar eru æskustöðvar Daníels föður Hauks á Seyðisfirði.

Haukur bjó og starfaði mest alla tíð sína á Ísafirði en fluttust suður yfir heiðar árið 1995 og bjó í Kópavogi síðustu æviár sín, hann lék stöku sinnum á nikkuna fyrir eldri borgara í Kópavogi á samkomum þeirra. Hann lést snemma sumars 2000 en hann hafði strítt við hjartasjúkdóma um árabil.

Efni á plötum